Barnshafandi kona var lögð inn á Queen’s sjúkrahúsið í Romford á Englandi. Þar dó hún og fjölskyldan fullyrðir að röð mistaka hafi verið gerð.
Konan, María De Jesus fluttist til Bretlands frá portúgölsku eyjunni Madeira árið 2005 og vann sem stuðningsfulltrúi í grunnskóla í Romford.
Hún var komin fimm mánuði á leið í október árið 2011 og þá fór hún að verða lasin. Eftir skoðun var henni sagt að hún væri með botnlangabólgu og yrði að fjarlægja botnlangann.
Aðgerðina gerðu tveir læknanemar – án eftirlits – og í misgripum fjarlægðu þeir eggjastokkana en botnlanginn varð eftir og í framhaldinu missti hún fóstrið.
Tveim dögum síðar dó María úr blóðeitrun. Stjórnendur sjúkrahússins hafa viðurkennt mistökin sem gerð voru og hafa gengist við skaðabótaskyldu. Einnig segjast þeir hafa bætt verkferlana eftir að þetta gerðist.
Læknaráð landsins rannsakar nú frammistöðu þeirra sem komu að málinu. Fjölskylda Maríu er sorgmædd og ósátt að lífi hennar og barns hennar skyldi ekki vera bjargað.
„Við fáum Maríu ekki aftur til okkar þó að við fáum einhverjar bætur eða þó tekið verði til á sjúkrahúsinu. Við sitjum eftir með missinn og söknuðinn“.