Ég fór um síðustu helgi í matarboð til vinafólks míns og þá hitti ég fimm ára dóttur þeirra í fyrsta sinn.
Maja litla var alveg dásamlega falleg hvar sem á hana var litið og komin í bleika náttkjólinn sinn. Ég var nærri því búin að missa út úr mér -“Maja, mikið ertu sæt! Oh, má ég sjá! Snúðu þér við og leyfðu mér að sjá þig og fallega kjólinn þinn betur, almáttugur hvað þú ert sæt“.
En ég hafði ég hemil á sjálfri mér. Fyrstu viðbrögð mín þegar ég hitti litlar stelpur eru alltaf að segja þeim hvað þær séu sætar, fallegar, í fallegum fötum og hvað hárið á þeim sé fallegt en ég segi þetta ekki þó að mig langi til þess.
Hvað er athugavert við að tala svona við litlar stelpur? Þetta er nú venjan í menningarheimi okkar, ekki satt? Af hverju má ekki hrósa þeim og styrkja sjálfsmynd þeirra? Þær eru svo dýrlegar að mig langar mest af öllu að segja eitthvað dásamlegt við þær.
Augnablik- lítum aðeins á þetta.
Nýlega var sagt frá því í fréttum á ABC útvarpsstöðinni að nærri helmingur allra þriggja til sex ára stelpna í Bandaríkjunum hafa áhyggjur af því að þær séu of feitar. Um fimmtungur af stelpum undir tólf ára aldri þar í landi eru farnar að mála sig kringum augun og setja á sig varalit daglega. Stöðugt glíma fleiri við átröskun og sjálfsálitið minnkar. Um það bil fjórðungur ungra amerískra kvenna myndi frekar vilja verða besta fyrirsætan í Ameríku (top model) en fá Nobels verðlaunin. Jafnvel háskólamenntaðar konur segjast frekar vilja vera „flottar“ en gáfaðar. Kona ein á Miami dó nýlega af afleiðingum fegrunaraðgerðar og skildi eftir sig tvö börn á unglingsaldri. Atburðir þessu líkir eru sífellt að gerast og mér þykja þeir dapurlegri en tárum taki.
Ef við kennum litlum stúlkum að við tökum fyrst eftir útliti þeirra segir það þeim að útlitið skipti öllu. Það hvetur þær til að fara í megrun þegar þær eru 5 ára, troða sér í magabelti 11 ára, fara í brjóstastækkun 17 ára og fá sér Botox 23 ára. Menning okkar segir stúlkum að það sé bráðnauðsynlegt og alveg eðlilegt að þær líti vel út allan sólarhringinn og konur í landi okkar verða stöðugt óhamingjusamari. Hvað er að? Hvað fór úrskeiðis? Hvað varð um líf sem hefur tilgang, líf þar sem er hugsað og bækur lesnar og við erum metin vegna andlegs atgervis og verka okkar?
Þess vegna gæti ég þess og reyni ævinlega að tala við litlar stelpur á eftirfarandi hátt.
“Maja,,” sagði ég og kraup við hlið hennar og horfði á hana, komdu blessuð og sæl.”
“Komdu sæl,” sagði hún og talaði eins og henni hafði verið kennt að tala við fullorðna.
“Hvað ertu að lesa?” spurði ég full áhuga. Mér finnst svo gaman að bókum, elska bækur !
Hún horfði opinmynnt á mig og leyndi sér ekki hvað henni fannst þetta skemmtilegt. Samt var hún dálítið feimin við mig enda þekkti hún mig ekki.
“Mér finnst rosalega gaman að bókum,” sagði ég. “En þér?” Flestum krökkum finnst gaman að bókum.
„JÁ,” sagði hún. „Og ég get lesið þær allar sjálf!“
„Er það !” sagði ég.
„Hvaða bók er uppáhaldsbókin þín?” spurði ég.
„Ég skal ná í hana! Ég skal lesa hana fyrir þig”.
Maja valdi bók sem ég þekkti ekki um stelpuna Purplicious og við settumst í sófann og hún las bókina hátt fyrir mig, um stelpuna sem vildi bara vera í bleiku og stelpurnar í skólanum stríddu henni endalaust af því að þær vildu bara vera í svörtum fötum. Æ, æ, þetta var bók um föt sem stelpur vildu vera í og hvernig fötin réðu öllu um tilveru þeirra. Þegar Maja var búin að lesa bókina ræddi ég svolítið við hana um dýpri merkingu efnis þessarar bókar sem er um þrýstinginn sem hópurinn beitir. Ég sagði henni að grænn væri uppáhaldslitur minn af því mér þætti svo vænt um náttúruna.
Við minntumst ekki á föt eða hár eða hver var fallegur. Það er ótrúlega erfitt að skauta fram hjá þessu umræðuefni þegar maður er að tala við litlar stelpur en ég hélt mínu striki.
Ég sagði henni að ég væri nýbúin að ljúka við bók og vonaði að hún myndi sjálf einhvern tíma skrifa bók. Það fannst henni spennandi hugmynd. Þegar svo var kominn tími fyrir Maju að fara í rúmið bað ég hana að velja aðra bók til að lesa fyrir mig næst þegar ég kæmi í heimsókn og við gætum talað saman um hana. Hún var svo spennt við þessa tilhugsun að hún kom nokkrum sinnum niður til okkar að tala um hvenær ég kæmi næst.
Þetta var sem sagt svolítið andóf við þau röngu skilaboð sem menning okkar sendir telpunum okkar, svolítil tilraun til að meta andlegt atgervi stúlkna okkar að verðleikum, tilraun til að vera verðug fyrirmynd. Er líklegt að þessar fáu mínútur mínar með Maju breyti margmilljarða fegurðariðnaði okkar, rauveruleikaþáttum sem niðurlægja konur og gjörsamlega galinni menningu kringum fræga fólkið? Nei, alveg áreiðanlega ekki. En þetta kvöld leit Maja á sjálfa sig á alveg sérstakan hátt.
Notaðu þessa aðferð næst þegar þú hittir litla stelpu. Vel má vera að hún verði hissa og ekki alveg örugg í fyrstu af því hún er ekki vön því að fólk tali svona við hana en vertu bara þolimóð og haltu áfram. Spurðu hana hvað hún sé að lesa, hvað henni finnist gaman að gera og hvað ekki og af hverju. Svörin eru hvorki rétt né röng, þið eruð bara að tala saman og þú tekur mark á því sem hún segir. Hún skilur það. Ef telpan er orðin stærri gætir þú brotið upp á öðru umræðuefni, t.d. mengun, átökum víða um heim, niðurskurði til skólastarfs svo að eitthvað sé nefnt. Hvað finnst henni um heimsmálin? Er eitthvað sérstakt sem þarf athugunar við? Hvað myndi hún gera ef hún ætti töfrasprota? Vel má vera að ýmsar áhugaverðar hugmyndir verði viðraðar í samtali ykkar. Segðu henni hvað þér finnst og hvað þú hefur verið að gera og hver er uppáhaldsbókin þín. Sýndu henni hvað hugsandi kona gerir og hvernig hún talar. Það væri gaman að frétta af samtali ykkar!
Ef við ætlum að breyta viðhorfum til kvenna byrjum við að vinna með einni lítilli stúlku.
Höfundur. Lisa Bloom, sem skrifaði bókina Think: Straight Talk For Women to Stay Smart in a Dumbed-Down World. Þú getur séð upprunalegu greinina hér. Greinin er íslenskuð af Hún.is.
Þessi grein á svo sannarlega rétt á sér og það er alveg tímabært að spá aðeins í því hvernig við tölum við börn og hvaða skilaboð við sendum þeim. Það er ekki gott ef stelpur eru vanar því frá barnæsku að þær séu ekki metnar að verðleikum fyrir hæfileika sína, heldur frekar útlit.