Helen Gillespie sem er 30 ára, byrjaði í megrun þegar hún var tíu ára gömul vegna þess að hún var hrædd við að eldast. Helen þroskaðist aldrei eðlilega, fékk aldrei kvenmannsbrjóst og fór ekki á kynþroskaskeiðið fyrr en hún var 26 ára. Það segir sig því sjálft að hún hafði ekki blæðingar.
Helen segist alltaf hafa verið hrædd við að eldast og hélt að með því að fara í megrun myndi draumurinn um að vera alltaf ung rætast. Helen hefur þurft að berjast við alvarlega átröskun frá unga aldri og er langt frá því að vera “ung” alltaf, eins og hún vildi.
Anorexía rænir þig æskunni
Átröskunin hefur haft þau áhrif á líkama hennar að hún hefur brothætt bein eins og 70 ára gömul kona. Helen er ung en í líkama gamallar konu. Helen segir:
“Læknar segja mér að beinin í mér séu mjög brothætt og ég brýt bein við minnstu áreynslu. Í einhvern tíma leit ég út eins og barn en nú líður mér eins og gamalli konu. Ég deili minni sögu vegna þess að ég vil vara aðra við að anorexía rænir þig æskunni.”
Borðaði bara 60 kaloríur á dag
Þegar Helen byrjaði fyrst í megrun leyfði hún sér bara að borða 60 kaloríur á dag. Þegar Helen var 14 ára var hún bara 28 kg og þegar hún var lögð inn á spítala átti hún bara sólarhring eftir ólifað. Hún fékk hjálp, næringu í æð sem bjargaði henni og hún lá á spítalanum í fjóra mánuði. Strax og hún kom heim byrjaði hún að svelta sig aftur þar til hún hafði lést það mikið að hún þurfti aftur á innlögn að halda.
Þessi vítahringur hélt áfram næstu ár. Þegar Helen var um tvítugt náði hún sér á strik í stuttan tíma og leit vel út, því miður entist þetta tímabil ekki lengi og fljótlega byrjaði hún að svelta sig aftur.
Helen segir að í fyrstu hafi hún kennt foreldrum sínum um. Henni fannst þeir gera of miklar kröfur til hennar. Í dag hefur hún áttað sig á því að hún reyndi að ná árangri í músik, dansi og fleiru en endaði á því að einbeita sér að þeim hlut sem hún var góð í – Að grennast. Hún segir:
“Ég gat stjórnað þyngd minni. Það var hæfileiki sem aðrar stelpur virtust dást að og þá leið mér vel.”
Helen fór fyrst á blæðingar 26 ára gömul. Hún hefur aldrei fengið brjóst, hún hefur engar mjaðmir og það er ekki gramm af fitu utan á henni. Helen berst enn við anorexíu en ákvað að stíga fram og segja sína sögu til þess að vara aðrar stelpur við þessum sjúkdómi.
Átröskun er ekki eftirsóknarverð!