Blaðamaðurinn Þórarinn Þórarinsson tók viðtal við unga konu sem vann á næturklúbb í miðborginni árið 2009. Hann birti þessa frásögn á Facebook í dag:
Fréttir af kampavínsklúbbafaraldri sem nú ríður yfir borgina urðu til þess að mér varð hugsað til valkyrjunnar Zediru sem ég ræddi við eitthvert vorkvöldið 2009. Hún var þá á leið af landi brott, fyrr en áætlað var, eftir að hafa gefist upp á að dansa á Strawberries. Hún kom hingað á eigin vegum, ekki síst til að kynnast landi og þjóð, og var ekki á þeirri brókinni að láta manselja sig eitt né neitt.
Þetta var á DV tímabilinu mínu og við Diddi ljósmyndari fórum á Íslenska barinn til fundar við franska módelið og dansarann sem ætlaði að fjármagna spennandi Íslandsheimsókn með smá súludansi. Einhver misskilningur virðist hafa orðið milli hennar og verkkaupans og hún sagði mér upp og ofan af ýmsu sem ætlast var til af henni sem hún kannaðist ekki við að hætti heima í starfslýsingu dansara. Meðal annars að sækja partí einhvers staðar úti í bæ og stytta þar einhverjum körlum stundir tímunum saman. Man þetta ekki í smáatriðum en minnir að hún hafi átt að fá 200.000 krónur fyrir eitt slíkt innlit. Hún talaði þó aldrei beint um vændi, í orðabókarskilningnum í það minnsta, en ýmislegt mátti lesa milli línanna. Og þegar Diddi bað hana um að tylla sér í rauða stólinn með háa bakinu fyrir myndatöku sagði hún ákveðið:
„I will not sit in this chair. It makes me look like a cheap prostitude!“
Hún þraukaði í tvær vikur og fékk þá nóg, rauk á dyr, leitaði til lögfræðings og ætlaði að gera launakröfu á hendur staðnum. En síðan yfirgaf hún landið í fússi og þótti ekkert of mikið til þess koma. Ég veit ekkert hvernig mál hennar þróaðist en sennilega hefur það lognast út af.
Einhverra hluta vegna birtum við aldrei viðtalið. Man ekki hvað olli en kannski hafði dugnaður Erlu Hlyns við að fá á sig meiðyrðakærur frá alls konar sótröftum eitthvað með það að gera. Zedira var svartklædd þegar við Diddi hittum hana og ég gleymi seint hörkunni í augum hennar og rödd þegar hún hvæsti:
„I am not Lithuanian, I am not Romanian, I am not Hungarian. I am French and I have rights.“
Gefur kannski einhverja vísbendingu um að staða þeirra kvenna sem hún hitti fyrir á Íslandi hafi verið eitthvað öðruvísi.