Til þín kæra óstundvísa manneskja

Það sem fer ofboðslega í taugarnar á mér er óstundvísi.
Fólk sem getur aldrei mætt á réttum tíma og þarf alltaf ævinlega að láta aðra bíða eftir sér.
Sjálf er ég mjög stundvís, passa að mæta á réttum tíma og það sem ég þoli ekki er að láta fólk bíða eftir mér. Þegar ég lendi í þeim aðstæðum að ég veit að einhver er að bíða eftir mér líður mér mjög óþægilega og þess vegna reyni ég af fremsta megni að forðast það að einhver sé að bíða.

Ég fer að spá í því hvað veldur því að fólk sé óstundvíst og þá er ég að tala um yfirleitt. Líklegast hefur það komið fyrir hjá stundvísu fólki að það kemur eitthvað uppá og er því seint á þann fund sem það hafði lofað sér á.
Ætli fólkið sem aldrei er á réttum tíma kunni hreinlega ekki á klukku almennileg?
Ætli þessum hópi fólks skorti skipulag?
Eða hreinlega nýtur það þess að mæta of seint og vita af því að það er verið að bíða eftir ?

Hvernig getur verið gaman að vera manneskjan sem mætir á leiksýningar, bíó, tónleika eða aðra viðburði?

Ef þú ert manneskjan sem ert alltaf á réttum tíma finnst þér líklegast ekkert gaman að þurfa eyða þínum tíma í að bíða eftir öðrum.
Ef þú ætlar að hitta vin á kaffihúsi og þið ætlið að hittast klukkan níu en manneskjan er ekki mætt fyrr en að ganga tíu og þú hafðir hugsað þér að fara snemma heim þá er það plan orðið breytt aðeins vegna vinar þíns sem gat ekki mætt á réttum tíma.
Ef þú ert að fara eitthvað með manneskju sem er óstundvís og þið eruð að mæta saman á viðburð. Manneskjan er endalaust að taka sig til og alltaf kemur upp nýtt og nýtt sem hún átti eftir að gera og þú mætir seint af því hún varð mögulega að moppa yfir gólfin, kíkja í gegnum póstinn og svara nokkrum póstum á Facebook. Já það er einmitt mjög pirrandi að mæta seint vegna þess að manneskjan sem þú ert að fara með getur ekki verið tilbúin á réttum tíma.

Óstundvísa manneskjan ,,beilar‘‘ líka gjarnan ef ég má aðeins sletta.
Hún stingur upp á að það verði hittingur einhverstaðar og mætir svo ekki sjálf.
Oft eru þessir aðilar ekki að afsaka sig einu sinni því þetta er jú daglegt brauð hjá þeim.

Þetta fólk gerir sér gjarnan ekki grein fyrir því að stundum er það ekki aðeins að eyða tíma frá fólki heldur einnig launum.
Ef þú átt pantað í klippingu eða einhverskonar snyrtingu klukkan eitt þá mætir þú rétt fyrir þann tíma.
Ef þú mætir til fagaðila 10-15 mínútum eða meira of seint þá ertu mjög líklega búin að tefja dagskrána fyrir fagaðilanum allan daginn. Já og öllum kúnnum sem á eftir þér eru.
Ég tala svo ekki um þá sem mæta ekki og láta ekki einu sinni vita.
Það ætti hreinlega að rukka þig fyrir þig helmingsverð í það minnsta því fagaðilinn mun mjög ólíklega fá annan kúnna fyrir þinn tíma rétt sí svona.

Ég hef oft heyrt fólk segja: ,,Ég er bara svona, ég er alltaf aðeins eða mikið of sein‘‘.

Til þín kæra óstundvísa manneskja:

Taktu þig saman í andlitinu og hættu að láta bíða eftir þér.
Það hafi allir nóg með sig og sinn tíma að það þurfi ekki að eyða honum í skipulagsleysi eða að þú kunnir ekki nægilega vel á klukku nú eða hvað sem það er sem veldur óstundvísi ítrekað.
Líttu í eigin barm og hugsaðu hversvegna þú mætir of seint.
Ef þú ert í tímaþröng og það er sú ástæða, ekki lofa þér þá hér og þar eins mikið og þú gerir.
Færðu frekar eitthvað yfir á næstu viku.
Ef þú kannt ekki á klukku þá er fín síða sem þú getur skoðað með að klikka hér.
Ef þú nýtur þess að vita af því að aðrir bíða eftir þér eða nýtur þess að labba í boð eða viðburði of seint, fáðu hjálp.

Berum virðingu fyrir vinum okkar, fjölskyldu, vinnufélögum og almenningi og nýtum okkar tíma ekki þeirra.

Ef þú átt við þessa hömlun að stríða þá þætti mér gaman að heyra ástæðu þess hér að neðan.

SHARE