Vinna að því að bjarga tígrisdýrum frá útrýmingu – Dýrin eru drepin og notuð sem skraut

Hópur kvenna í Nepal vinnur nú að því að bjarga tígrísdýrum frá útrýmingu og styður WWF (World Wildlife Fund- Sjóður til verndar villtum dýrum um allan heim) starf þeirra. 

 

Maya Yogi, sem vinnur á vegum ríkisstjórnarinnar í Nepal að þessu verkefni segir að náttúruvernd sé ekkert einkamál karla. Konur eigi og þurfi líka að taka virkan þátt í því verkefni.

A síðustu hundrað árum hefur tígrisdýrum fækkað um 97% í Nepal og er ljóst að þau verða orðin útdauð verði ekkert að gert. Björgunarstarfið beinist að þrem þáttum sem eru að stöðva ólöglegar veiðar á dýrunum, vernda lendur þeirra (skóglendi) og uppfræða almenning og fá hann í lið með sér. Þetta verkefni, segir Maya bjargar ekki bara tígrisdýrum heldur gefur það konunum líka verðugt verk að vinna.

Hún hefur unnið að þessu verkefni í tólf ár og farið um allt landið að hitta og tala við fólk en samt hefur hún einungis tvisvar séð tígrisdýr.

Talið er að áður fyrr hafi um 100,000 tígrisdýr eigrað um landið. En af hverju hefur þeim fækkað svona?


Til þessar miklu fækkunar liggja aðallega þrjár ástæður. Skógum, sem eru kjörlendi dýranna hefur verið eytt ótæpilega. Mikil ásókn er í feldina til húsaskrauts og svo er mikil trú á lækninga- og töframátt ýmissa líkamshluta  tígrisdýra. Fólk í austurlöndum fjær t.d. í Hong Kong, Beijing og Shanghai borgar stórfé fyrir dálítið af beinum, kjöti eða líkmashlutum dýranna.  Fólk trúir því statt og stöðugt að í líkamsleifum tígrisdýra sé mikill lækningarmáttur. Fleiri dýr eins og fílar, nashyrningar og pöndur eru reyndar í hættu vegna sambærilegrar trúar.

Beinin úr tígrisdýrum eru möluð og notuð í lyf, áburð og súpu. Súpa soðin af reð ( typpi) af tígrisdýri kostar t.d. í Hong Kong sem samsvarar 35 þús. ísl. króna. Fólk telur að þessi töfrasúpa lagi risvandamál karla- og sífellt eykst eftirspurnin eftir galdralyfinu. Möluðum tígrisdýrabeinum er blandað saman við vín og eru mörg þúsund flöskur af tígrisdýravíni seldar –ólöglega- í Kína ár hvert.

Veiðiþjófarnir nota aðallega gildrur til að ná dýrunum. Dýrin festast í gildrunum og svo eru rekin spjót upp í  ginið á þeim og þau drepin þannig. Þetta er gert til þess að ekki sjái á feldinum.

Eitt af verkefnum kvennanna er að leita að gildrum og eyðileggja þær. Þau fáu tígrisdýr sem enn eru eftir eru í Badia þjóðgarðinum og þar er auðvitað aðal athafnasvæði veiðiþjófanna og kvennanna sem hafa sagt þeim stríð á hendur.

Vandinn í Nepal er margslunginn. Mjög hefur þrengt að þeim dýrum sem eftir eru því að skógum hefur verið eytt ótæpilega og þar lifa dádýrin sem eru aðalfæða tígrisdýranna. Þegar þau ná ekki í dádýr leggjast þau á bústofn bænda sem vilja dýrin auðvitað feig.   Hungruð tígrisdýr ráðast  jafnvel á fólk og er ekki að undra að bændurnir vilji drepa þau.

 

 

SHARE