Hún átti ekki fyrir lyfjum fyrir dóttur sína

Ásta Hafberg skrifar stutta grein á Facebook síðu sína um atvik sem hún varð vitni að og í framhaldi hjálpaði hún manneskjunni sem átti í vanda.
Okkur fannst tilvalið að deila því með ykkur bæði vegna þess að okkur er hollt að lesa um góðhjartað fólk eins og Ástu og hinsvegar er nauðsynlegt að hafa augu opin fyrir ástandinu sem hér ríkir.

,,Ég fór í apótekið áðan, sem er ekki frásögu færandi, nema vegna þess að á undan mér í röðinni þar sem maður fer út af lyfseðlum stóð miðaldra kona og talaði við afgreiðslustúlkuna.
Ég gat ekki annað en heyrt það sem um var rætt enda rétt á eftir konunni í röð. Konan var þarna til að leysa út lyf fyrir dóttur sína sem þurfti á þeim að halda daglega, sem sagt ekki eitthvað sem hún hefði getað sleppt eins og ég sem var bara að ná í Íbúfen og Parkódín vegna bakverkja. Allt í einu spyr hún afgreiðsludömuna hvort hún geti fengið lánað fyrir lyfjunum. Ég fann bara hvernig hjartað á mér sökk ofan í gólfið við að heyra þetta þó þessar samræður kæmu mér ekki á óvart að neinu leiti.
Afgreiðsludaman hafði enga heimild til að lána fyrir lyfjunum þar sem fyrirtækið gerði ekki ráð fyrir því. Svo þarna stóð þessi kona á undan mér og gat ekkert gert. Dóttirin þurfti lyfin sín.
Þarna gat ég ekki lengur á mér setið og bauðst til að lána henni fyrir lyfjunum. Henni krossbrá, en við ræddum þetta og gengum frá þessu svo að dóttirin getur fengið lyfin sín, sem eru henni nauðsyn á hverjum degi.
Það sem sló mig eru nokkrir hlutir. Einn var að íslenska velferðakerfið er ekki velferðakerfi fyrir fimm aura ef að manneskja getur ekki borgað fyrir lyf um miðjan mánuð sem kosta undir 5000 kr. Það sló mig líka að við höfum leyft okkur allt of lengi að loka augunum fyrir neyð samborgara okkar og þá á ég ekki bara við neyð þeirra sem eru á örorku og ellilífeyri heldur neyð þeirra sem eru í vinnu og eiga börn að sjá fyrir.
Það sló mig að samfélagið okkar er aldrei betra en sá sem hefur það verst og það er okkar allra að sjá til þess að fólk geti lifað mannsæmandi lífi í þessu landi.
Það sem ég hef að segja í lokin er að við getum skammast okkar fyrir þessa smán í íslensku þjóðfélagi og það alla leið niður í tær. Við eigum ekki að eira neinu fyrr en hver einasta manneskja á Íslandi getur lifað mánuðinn af mannsæmandi.
Ég hengi þig í þetta Eygló Harðardóttir þar sem ég held að þetta heyri undir þinn málaflokk.”

SHARE