Þær Pálína Ósk Hraundal og Vilborg Arna Gissurardóttir eru að skrifa Útilífsbókina sem kemur út næskomandi vor, en bókinni er ætlað að stuðla að auknu útilífi og hreyfingu barna og fjölskyldunnar án mikils kostnaðar.
Við hjá Hún.is ræddum aðeins við Pálínu á dögunum um bókina: „Bókin er ástríðuverkefni okkar Vilborgar en við höfum báðar brennandi áhuga fyrir öllu sem tengist útilífi og útivist. Við ákváðum að ráðast á þetta verkefni og nú höfum við gert Facebook síðu fyrir verkefnið þar sem fólk getur fylgst með gerð bókarinnar, fengið hugmyndir af leikjum, afþreyingu, búnaði, föndri og ferðum,“ segir Pálína.
Bókin verður kjörin fyrir fjölskyldur og einnig skólastarf. Nú er víða á Íslandi verið að byggja upp öfluga útikennslu og því gaman að geta tekið þátt í því með bókinni.
„Við erum ótrúlega ánægðar hversu vel þetta verkefni fer af stað og höfum strax fundið gríðalegan áhuga fólks og fundið fyrir hvatningu. Sem við erum afar þakklátar fyrir.“
Pálína og Vilborg kynntust á fyrsta ári í ferðamálafræðinni á Hólum og hafa alltaf náð mjög vel saman. Pálína stundaði framhaldsnám í náttúrutengdri ferðaþjónustu og sérhæfði sig svo í upplifun og útilífi fyrir börn og unglinga. Auk þess leggur hún nú stund á nám við Listaljóstmyndaskólann í Osló þar sem hún er búsett.
„Það er afar skemmtileg blanda sem skemmtilegt er að nota núna við þetta verkefni. Nú er ég flest alla daga úti að mynda fyrir bókina. Hér í Noregi fæ ég innblástur daglega af skemmtilegum hugmyndum og ráðum sem tengjast börnum og útivist. Við höfum báðar haldið fjölda námskeiða fyrir börn og unglinga og ætlum okkur að halda því áfram eftir gerð bókarinnar til þess að fylgja okkar ráðum og hugmyndum eftir. Það sem er kannski ánægjulegast eftir hvert námskeið er hvað fólk er „hissa“ á því hversu einfalt og skemmtilegt það er að búa til flotta upplifun í náttúrunni og stunda útilíf,“ segir Pálína.
Vilborg Arna hefur stundað útivist af krafti síðustu 10 ár. Ævintýraþráin er sterk hjá henni og hefur hún m.a. gengið einssömul á Suðurpólinn og nú stefnir hún á hæsta tind í hverri heimsálfu á einu ári. Meðfram námi stundaði hún leiðsögn um hálendi Íslands. Vilborg hefur einnig talsverða reynslu á að vinna með börnum þar sem hún vann um árabil sem íþróttaþjálfari. Nú er Vilborg stödd í Rússlandi með hóp af Íslendingum en þau klifu hæsta tind Evrópu, Elbrus og náðu toppnum þann 12. ágúst síðastliðinn. Það er hluti af verkefni hennar Tindarnir sjö.
Þessar ungu konur eru heldur betur öflugar og það verður spennandi að fylgjast með þeim og bókinni á næstunni.
Facebook síða Útilífsbókar barnanna.
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.