Mjög víðtæk rannsókn um þetta efni gefur ástæðu til að álykta að ef til vill megi rekja einhverfu barna til þess að fæðing var sett af stað. Þetta verður rannsakað í þaula því að mjög hefur færst í vöxt að fæðingar séu settar af stað.
Sérfræðingar velta fyrir sér hvort lyfin sem gefin eru til að koma fæðingunni af stað séu skaðleg eða hvort hér gæti verið um eitthvað annað að ræða. Hér er t.d. verið að vísa til sykursýki móður eða einhverra vandamála fósturs á meðgöngu. Þessir þættir hafa áður verið skoðaðir í tenglsum við einhverfu.
Það er með þessa rannsókn eins og flestar fyrri rannsóknir á einhverfu að hún veitir ekki skýr svör og þeir sem að henni stóðu taka fram að þessi grunur megi ekki verða til þess að fæðing verði ekki sett af stað þegar um líf barns eða móður er að ræða.
Simon Gregory, sem er prófessor í læknadeild Duke háskólans segir að ekki megi rasa að niðurstöðum. Svörin séu ekki afgerandi og menn þurfi nú fyrst og fremst að skoða af hverju eins margar fæðingar séu settar af stað og nú er gert. Nú er 1 af hverjum 5 fæðingum sett af stað í Bandaríkjunum sem er fimm sinnum meira en var árið 1990.
Áður hafa smærri rannsóknir bent til svipaðrar niðurstöðu um tengslin milli inngripa í fæðingarferlið og einhverfu en rannsóknin sem hér er vísað til og tók til 600.000 fæðinga hefur vakið mikla athygli sérfæðinga m.a. vegna þess hvað hún var víðtæk.
Rannsakendur báru saman skýrslur um fæðingarnar og skýrslur um skólagöngu barnanna á árunum 1990 -2008. Af þessum fjölda, 600.000 fæðingum, var fæðing sett af stað í 170.000 fæðingum. Af þessum hópi eru 5.648 börn einhverf og var fæðing sett af stað í nærri þriðju hverri fæðingu. Í hópi einhverfu barnanna voru fleiri drengir en stúlkur.
Ýmsar kenningar eru um orsakir einhverfu og eru þær meira og minna ágiskanir en vísindamenn vinna að því að finna þessar ástæður til að reyna að koma í veg fyrir einhverfu. Ástandið getur verið mjög hamlandi og þeim erfitt sem glíma við það. Ýmsir þættir eru nú skoðaðir, svo sem veikindi á meðgöngu, lyfjanotkun, aldur föður og erfið fæðing en eins og áður segir eru ástæður einhverfu enn á huldu.
Mönnum kemur þó saman um að allt bendi til þess að börn verði einhverf á fósturskeiði eða fljótlega eftir fæðingu. Áfram er haldið að reyna að leysa gátuna um einhverfu.