Í DV í morgun var lauslega talað við Huldu Lindu Stefánsdóttur sem er eigandi leikskólans 101 en við sögðum frá því fyrr í vikunni að leikskólanum var lokað vegna gruns um að þar væri í gangi harðræði. Sumarstarfsmenn leikskólans höfðu þá farið með myndband til barnaverndar sem sýna harðræði og var þá hringt í foreldrana og þeim greint frá málavöxtum.
Eigandi leikskólans lokaði þá leikskólanum á meðan á rannsókn stendur: „Ég hef aldrei séð þetta myndband og frétti af þessu á sama tíma og fjölmiðlar. Ég fæ ekki að sjá þetta myndband,“ segir Hulda í samtali við DV. „Ég var jörðuð á einni nóttu – ég og mitt fyrirtæki. Fréttaflutningurinn er búinn að vera rangur frá byrjun. Það er búið að fella dóm yfir okkur hérna, þetta er það hræðilegasta sem ég hef lent í.“