Nýleg könnun sem gerð var á síðunni todaymoms.com leiddi í ljós að 75% þeirra mæðra sem tóku þátt sögðust gera sér grein fyrir því að kröfurnar um að allt sé fullkomið eru í þeirra eigin kolli en ekki frá öðrum komnar. Þær sögðu að kröfurnar sem þær gerðu til sín væru mun verri en kröfurnar sem aðrir gerðu til þeirra. Það voru um 7 þúsund konur sem tóku þátt í könnuninni og 72% þeirra kvenna sem svöruðu spurningunum sögðust ofan á allt hafa áhyggjur af því að þær hefðu of miklar áhyggjur.
Kavita Varma White skrifaði góða grein um málið og segir:
Mömmur, við erum okkur sjálfum verstar.
Við höfum áhyggjur af hvað börnin okkar borða, hvernið þau haga sér, hvort þau eru að læra nægilega mikið, eiga félaga og lifa heilsusamlega. Og til að bæta gráu ofan á svart höfum við áhyggjur af sjálfum okkur, hvort við stöndum okkur heima fyrir, í vinnunni, í samstarfi við skóla barnanna og yfirleitt hvar sem er. Til viðbótar þessu höfum við áhyggjur af hvað aðrir hugsa um okkur, já og svo höfum við líka áhyggjur af að við höfum of miklar áhyggjur.
Það er rétt að átta sig á því strax að þessi líðan skrifast á okkur sjálfar. Þetta hefur verið rannskað í þaula og þá kom í ljós að konur gera sér grein fyrir því að kröfurnar um að allt sé fullkomið eru í þeirra eigin kolli en ekki frá öðrum komnar.
Af hverju komum við svona fram við okkur sjálfar? Margar mæður átta sig á því að þær ættu ekki að setja sér að vera fullkomnar. Það er alveg nóg að setja sér að vera bara eins góð mamma og maður getur.
Konur ættu að passa sig á því að láta ekki aðrar konur segja sér eða ákveða fyrir sig hvernig hin „fullkomna“ mamma er. Í fyrsta lagi er engin víðtekin skilgreining á „fullkominn“ og sitt sýnist hverjum um það. Vandamálið byrjar þegar mömmur fara að láta aðrar mömmur hringla í sér.
Margar konur vinna mikið og hafa mikla ábyrgð utan heimilisins. Það getur orðið mjög snúið að taka þátt í öllu mögulegu í og utan skóla þar sem þörf er á þátttöku foreldranna. Sumar þessara kvenna hafa tekið ákvörðun um að takmarka sig við ákveðna viðburði, t.d. að halda góða afmælisveislu fyrir börnin. En það kom í ljós í könnuninni sem nefnd var, að flestar mömmurnar tókust á við sektarkennd og kvíða að þær væru einfaldlega ekki nógu góðar mömmur.
Eitt af því sem við ættum að setja okkur er að hafa gaman af því sem við gerum saman. Það má alls ekki vera gleðisnauð áþján, gleði og ánægja eru lykilorðin.
Þegar mömmurnar voru spurðar hvað væri helsti streituvaldurinn svaraði mikill meiri hluti að tímaskortur- að geta ekki gert allt það sem þarf að gera og þær langar að gera væri versti óvinur þeirra. Margar nefndu líka að fjárhagsáhyggjur þjökuðu sig.
Könnunin leiddi líka í ljós að mömmur táninga voru yfirleitt verr haldnar af streitu en mömmur ungra barna. Það er nokkuð ljóst að enginn er fullkominn og það er bara allt í lagi!