Kristinn Þorsteinsson, skólameistari Fjölbrautarskólans í Garðabæ hefur greint frá því að ekki verði fleiri busavígslur í FG.
Hann tekur fram í yfirlýsingu sinni að skólastjórnendum hafi alla tíð verið í nöp við busavígslur en þrátt fyrir það hafi þær verið leyfðar og kennarar fylgst grannt með að ekkert færi úr böndunum.
Einkabusar beittir grófu ofbeldi
Kristinn segir að á seinni árum hafi það færst í vöxt að einkabusanir fari fram þegar busavígslu er lokið í FG. Þar segir hann að eldri piltar, sem jafnvel eru ekki nemendur í skólanum, taki nýnema FG fyrir og beiti þá grófu ofbeldi.
Kristinn segir að skólinn hafi reynt að sporna við ofbeldinu með því að bjóða nýnemum í skipulagðar ferðir að busavígslu lokinni:
Okkur til mikillar undrunar og vonbrigða hefur talsverður hópur nýnema sleppt því að fara í þessar ferðir til þess eins að láta beita sig grófu ofbeldi og eru þannig orðnir viljugir þáttakendur, segir Kristinn og segir hann að talsverður hópur nemenda hafi kosið að fara ekki með í ferðina gagngert til að taka þátt í einkabusun.
Við sögu komu fiskikör með úrgangi og úldnum kjúklingum, nýnemun var hent í sjóinn, hendur bundnar aftur fyrir bak og gyrt niður um nýnema og ógeðisdrykk hent um ganga Verslunarskólans.
Kristinn segir að nýnemar hafi verið beittir grófu ofbeldi. Gyrt var niður um nýnema, þeir hafðir í ólum og hent í sjóinn. Skólastjórnendum FG bárust kvartanir úr Garðaskóla, Hafnarfirði, Verslunarskólanum og Kringlunni þar sem eldri nemendur urðu sér og öðrum til skammar.
Drengirnir hafa orðið sér, foreldrum sínum og skólanum til skammar
Það er engum blöðum um það að fletta að þessir piltar hafa orðið sér, foreldrum sínum og skólanum til skammar, segir Kristinn.
Ekki fleiri busavígslur í FG
Svona getur þetta ekki gengið. Viðbrögð skólans verða af tvennum toga. Í fyrsta lagi sendum við foreldrum þeirra
drengja sem við vitum að tóku þátt bréf þar sem við förum fram á að á þessu verði tekið á heimilinu. Við vitum að við
höfum ekki nema hluta nafnanna en teljum rétt að koma því sem við vitum á framfæri. Í öðru lagi verða ekki fleiri
busavígslur í FG. Við munum auðvitað bjóða nýnema áfram velkomna og nýnemaferðir verða áfram á dagskrá. En við
getum ekki lengur verið einhverjum ofbeldisseggjum skálkaskjól til að svala ofbeldisþörf sinni, segir Kristinn að lokum.
Yfirlýsinguna getur þú lesið í heild sinni hér.