RIFF kvikmyndahátíðin haldin í 10. skipti – Stórglæsileg dagskrá

RIFF kvikmyndahátíðin er haldin nú í tíunda sinn og því enn meiri kraftur í hana lagður þetta árið. Þrír heiðursgestir verða á hátíðinni sem þykja, þrátt fyrir ungan aldur, hafa skarað framúr á sínu sviði. Þá mun fjöldinn allur af gestum taka þátt í dagskrá hátíðarinnar og gestum mun gefast kostur á að spyrja þá út í verk þeirra.

Lukas Moodyson frá Svíþjóð er einn af heiðursgestunum og hann mun sýna hina klassísku Fucking Åmål,ásamt hinni tilraunakenndu Container og nýjustu mynd sinni We are the Best sem fjallar um unglingsstúlkur sem stofna pönkhljómsveit þegar pönkið er að deyja út.

Annar heiðursgestur er James Grey er mikið að vinna með Joaquin Pheonix og gerir myndir um stéttarskiptingu samfélaga.

Sá þriðji er Laurent Cantent sem er sagður andsvar Frakka við Ken Loach.

Á kvikmyndahátíðinn verður boðið upp á sundbíó, bíósýningu í helli, Hótel Borg mun hanna fyrir hátíðagesti matseðil í tengslum við bíósýningu, sýningu heima hjá Hrafni Gunnlaugs og Nýtt líf verður döbbuð upp á nýtt.

Dagskránni er skipt í flokka, það eru Vitarnir (New visions) þar keppa nýjar myndir sem eru annað hvort fyrsta eða önnur mynd leikstjórans í fullri lengd.

Fyrir opnu hafi (open seas) eru myndir sem hafa vakið athygli á þessum kvikmyndahátíðahring sem er í gangi á hverju ári. Þar hefur Líf Adele/La vie d’Adele/Blue is the warmest colour kannski vakið hvað mesta athygli en hún fjallar um;  Adéle sem er fimmtán ára unglingsstúlka sem þráir að verða kennari. Líf hennar snýst á haus þegar hún kynnist listanema í nálægum listaskóla, hinni bláhærðu Emmu. Úr verður ástarævintýri. Þetta þriggja tíma langa djarfa lesbíu-drama vann Gullpálmann í Cannes árið 2013 og varð fyrsta myndin þar sem bæði leikstjórinn og aðalleikkonurnar fengu verðlaun.

Myndin er búin að vera svolítið í fréttum út af kynlífsatriðum og leikkonunum og mjög umdeild.

 

Önnur framtíð (A different tomorrow), er hópur kvikmynda sem fjalla um framtíðarhorfur og hvað sé hægt að gera til að gera heiminn að betri stað fyrir afkomendur okkar.

Sýndur verður mjög áhugaverður heimildamyndapakka  þar sem meðal annars verður sýnd ný heimildamynd um Marilyn Monroe.

Þá er einn flokkur helgaður Grikklandi sem á á vissan hátt margt sammerkt með Íslandi eftir hrun.

Annar flokkur einblínir á Ísland og má meðal annars nefna það verður frumsýnd nýja mynd Róberts Douglas This is Sanlitun á opnunarathöfn hátíðarinnar.

Hér eru nokkrar myndir sem í boði verða á hátíðinni: 

BJARTIR DAGAR FRAMUNDAN / BRIGHT DAYS AHEAD / LES BEAUX JOURS

Director: Marion Vernoux (FRA) 2013 / 94 min

Einlæg kvikmynd um lífið og hvernig upphaf getur leynst í endalokum. Caroline er farin á eftirlaun og hefur loks tíma fyrir fjölskylduna og sjálfa sig. En hún áttar sig fljótlega á því að hinu nýja frelsi fylgir leiði. Hún ákveður að taka af skarið þegar henni býðst aðild að félagi eldri borgara í hverfinu hennar. Henni að óvörum kynnist hún frábæru fólki þar, eins og t.a.m. ungum tölvufræðikennara sem er langt frá því ónæmur fyrir töfrum hennar.

– Rómantísk mynd um ástir “eldri-borgara” og yngri karlmanns. 

NESTISBOXIÐ / THE LUNCHBOX

Director: Ritesh Batra (IND) 2013 / 104 min

Röng afhending í hinu fræga og skilvirka kerfi nestisboxa-sendinga í Mumbai, Indlandi, tengir óvænt saman unga vanrækta húsmóður og eldri mann. Þau skapa heim fantasíu með því að skiptast á orðsendingum í nestisboxunum. Smátt og smátt fer fantasían að ógna raunveruleikanum. Þetta er verulega hjartnæm “feel-good” mynd sem sneiðir hjá klisjunum.

– Fantasía og rómantík á Indlandi.

 

STUND GAUPUNNAR / THE HOUR OF THE LYNX / I LOSSENS TIME

Director: Sören Kragh-Jacobsen (DEN / SWE) 2013 / 93 min

Vísindamaðurinn Lísbet biður Helen, 45 ára gamlan prest, í örvæntingu sinni um hjálp. Ungur maður sem hefur verið lagður inn á réttargeðdeild eftir að hafa drepið eldri hjón, hefur gert tilraun til að fyrirfara sér og á meðan röflar hann um Guð. Af ótta við að hann reyni aftur að fremja sjálfsmorð leggja þessar tvær konur, presturinn og vísindamaðurinn, af stað í ferðalag djúpt inn í sjúkan huga þessa unga manns.

– Danskur spennutryllir sem skartar leikkonunni Sofie Gråbøl (sem leikur Sarah Lund í Glæpnum / Forbrydelse)

 

KYNLÍF, EITURLYF OG SKATTAR / SEX, DRUGS AND TAXATION / SPIES & GLISTRUP

Director: Christoffer Boe (DEN) 2013 / 110 min

Sönn saga um ótrúlega vináttu tveggja alræmdra Dana: Mogens Glistrup, lögfræðings sem leiddist út í stjórnmál og hins umdeilda “ferðakóngs”, milljónamærings og kvennabósa, Simon Spies. Þrátt fyrir mismunandi lifnaðarhætti urðu Glistrup og Spies bestu vinir og gerðu Spies Travel að einni arðbærustu ferðaskrifstofu Skandinavíu á sjöunda og áttunda áratugnum. Þegar Glistrup opinberar að hann borgi ekki skatta – “og að enginn ætti að gera það!” – verður viðskiptasamband þeirra og vinátta óleysanleg þraut.

– Leikin dönsk nútímasaga um einstaka karaktera.

 

INDVERSKT SUMAR / INDIAN SUMMER 

Director: Simon Brook (FRA) 2013 / 84 min

Indverskt sumar er gamansöm vegamynd um ferðalag um Suður-Indland til að kanna læknismeðferðina Ayurvedic, fimm þúsund ára óhefðbundna lækningu. Myndin fylgir óvenjulegu pari: Heimsfrægum frönskum eitlalækni sem þráir að kynnast annars konar lækningum og draga þekkingu sína í efa og fyrrverandi sjúklingnum hans sem valdi indverskar lækningar fram yfir þá meðferð sem mælt er með. “Læknisfræðilegur gamanleikur” sem fjallar á nýstárlegan og frumlegan hátt um efnið.

 

– Óhefðbundnar lækningar séðar í nýju og fersku ljósi.

SHARE