20 ráð til að fá sem mest út úr árunum milli tvítugs og þrítugs!

Það er ýmislegt merkilegt sem á sér stað á tvítugsaldrinum. Mörg eignumst við börn, klárum nám, hlaupum af okkur hornin, upplifum allskyns ástarsambönd, ferðumst og djömmum kannski svolítið í leiðinni. Sum okkar hafa það ekkert alltaf neitt rosalega gott fjárhagslega séð á tvítugsaldrinum. Við erum kannski í námi og sum okkar eiga ekki fyrir salti í grautinn, kaupum okkur ódýr föt í Kolaportinu eða bara hvað sem við finnum. Upp úr þrítugu fer oft að komast meiri regla á allt saman og margir koma betur undir sig fótunum þó að þetta sé auðvitað allt rosalega misjafnt.

Hvernig getum við fengið sem mest út úr þessum dýrðlegu árum milli tvítugs og þrítugs? Huffpost birti hugleiðingar og ágæt ráð frá fólki sem hefur staðið í þessum sporum og gefur fólki eftirfarandi ráð:

1.    Gríptu gæsina!

Þú ert nýbyrjuð að vinna og væntanlega ertu ekki með afborganir af húsnæði eða komin með börn og ekki rígföst enn í einhverju starfi sem þú ætlar að gera að ævistarfi þínu. Með þessu erum við ekki að segja að þú skulir hlaupa stefnulaust milli starfa en ef og þegar þér opnast tækifæri til betri starfa sem þér finnast lofa mjög góðu skaltu ekki hika. Sú sem þetta skrifar byrjaði að vinna við bókhald,  færði sig yfir í fjárfestingar og vinnur nú á fjölmiðli. Maður veit aldrei  hvert leiðin getur legið. (Kara Eschbach, eigandi og ritstjóri  Verily Magazine)

2. Vertu ekki að hanga í vinnu sem þér dauðleiðist.

“Leitaðu að vinnu sem þér finnst skemmtilegt að fara í á morgnana og ef þú getur skaltu leggja eitthvað fyrir í hverjum mánuði. Ef þú hefur þó ekki sé nema smá fjárhagslegt frelsi gefur það þér rými til að láta langanir þínar rætast“.

(Chelsea Brownridge, meðeigandi og forstjóri fréttamiðilsins Ignite Good)

3. Hættu að kvarta. “Þegar upp er staðið berð þú sjálf ábyrgð á hamingju þinni og  góðu gengi. Ef þér finnst eitthvað vera að skaltu bara taka á því!“

( Maurya Couvares, ScriptEd)

4.Hringdu og segðu það sem þú þarft að segja.   

 “Þú skalt ekki samþykkja athugasemdalaust það sem aðrir rétta að þér. Virtu langanir þínar. Vertu ekki hrædd við að tala á fundum eða gera eitthvað sem þér finnst ef til vill vera kvíðvænlegt. Þú skalt endilega láta fólk vita hvað þú hugsar og óskar þér og þú nærð þínu fram fyrr en þig grunar!  Settu markið hátt!”

( Danielle Deabler, National Public Radio, stjórnandi þáttarins „Kynslóðinar hlusti“.

5.    Skrifaðu hjá þér það sem þér finnst ekki hægt að semja um.   

“Þegar þú ert milli tvítugs og þrítugs máttu og áttu að vera eigingjörn og dálítið sjálflæg. Þú ert að kynnast sjálfri þér, hvað þú ert sátt við og það sem skiptir ekki minna máli- hvað þú ert ósátt við. Áttaðu þig á því, að það er alveg nauðsynlegt fyrir þig að þú vitir hvað þér líkar alls ekki hvort sem er  í starfi eða einkalífi.“     (Rhoda Tamakloe, Deildarforseti Kaplan Educational Foundation (menntastofnun))

6.    Fylgdu málum eftir. 

“Settu þér markmið í hverjum mánuði og náðu þeim! Það er ekki flóknara.

(Penelope Trunk, frumvöðull, vel þekkt fyrir starfsráðgjöf og ritstörf. Þekktur bloggari Penelope Trunkog eigandi  Brazen Careerist, vefs sem birtir að staðaldri greinar í yfir 200 blöðum í  Bandaríkjunum)

7.    Vertu róttæk. 

“Hikaðu ekki við að vera róttæk bæði í hugsun og verki. Nú er rétti tíminn til þess. Í allri sögu mannsins var það unga fólkið sem stóð fyrir breytingum og fór stundum út á ystu mörk til að ná þeim fram. (Lestu bara mannkynssöguna!)  Ég lofa þér því að þú getur þetta þó að þú sért líka að skoða alla netmiðlana!”

(Taylor Jo Isenberg, stjórnandi  Roosevelt Institute | Campus Network)

8.    Náðu tökum á því sem þú óttast.  

“Ef þér líður illa þegar þú ert komin hátt upp skaltu fara í fallhlífarstökk. Ef þú ert hrædd við að fara í pontu skaltu æfa þig að halda ræður. Byrjaðu með fólki sem þú treystir og láttu bara vaða. Ef þú tekur á ótta af þessu tagi eykur það þér kjark á öllum sviðum lífsins og þá verða stóru ákvarðanirnar ekki jafn skelfilegar“.

(Rachel Hurley, sjálfstætt starfandi ráðgjafi)

9.    Það er ekkert að því að mistakast stundum. 

„Möguleikarnir til að ná langt og til að mistakast standa okkur báðir til boða. Ef þú leggur ekki í að láta þér mistakast langar þig ekki heldur til að ná langt.  Mesta áhættan sem við tökum á aldrinum milli tvítugs og þrítugs er sú að við tökum aldrei áhættu.”

( Paul Angone, höfundur bókarinnar 101 Secrets for your Twenties, stofnandi AllGroanUp.com)

10.Sættu þig við mistökin. “Þegar ég var að pæla í hvernig ég ætti að haga lífi mínu milli tvítugs og þrítugs áttaði ég mig á því að mestu skipti að mistök geta verið stiklur yfir til sigra. Ég fékk sannarlega mörg tækifæri til að læra þetta þegar ég var á þessum aldri. Gengi mitt síðar meir hefði aldrei orðið ef ég hefði ekki lært af mistökunum sem ég gerði á þessum árum. Ég hefði alveg þáð að gera færri mistök en þau eru ekki bara hluti lífsins heldur dýrmætur hluti lífsins.”

(Arianna Huffington, rithöfundur, stjórnarformaður, forstjóri og aðalritstjóri Huffington Post)

11. Hættu að tala og farðu að hlusta. 

“Gallin við okkur þegar við erum á þessum aldri er sá að stundum höldum við að við vitum alla skapaða hluti. Þó að það geti vel verið er hitt þó líka rétt að viðhorf og skoðanir annarra geta víkkað sjóndeildarhring þinn og aukið þekkinguna. Nálgastu málin þannig að þú getir lært af fólkinu sem þú ert með, hlustaðu og spyrðu svo.”

(Azita Ardakani, stofnandi LoveSocial)

12. Horfðu fram á veginn. 

„Að vera á eftir snýst ekki um það að bera þig saman við annað fólk. Þú ert á eftir ef þú nærð ekki markmiðum þínum þegar þú ert kominn á fertugs eða fimmtugs aldurinn“. Settu þér markmið og hafðu þau raunhæf. Hvernig langar þig til að líf þitt verði eftir tíu ár? Ef þú þorir ekki að gera þetta ættirðu að spyrja þig að eftirfarandi: Verð ég ánægð eftir fimm ár ef ég verð nákvæmlega í sömu sporum og núna? Ef þú heldur að svo verði ekki þarftu greinilega að taka til hendinni.”

(Meg Jay, sálfræðingur og höfundur bókarinnar  The Defining Decade: Why Your 20s Matter – and How to Make the Most of Them Now)

13. Taktu þér stund til að hugsa. “Ef þú athugar stöðu mála kemur þú auga á hvað er í boði til að ná markmiðum þínum.  Þegar þú hefur komið auga á leiðirnar skaltu grípa tækifærin til að ná markmiðum þínum. Vertu ákveðin því að leiðin getur verið grýtt.“

(Rey Faustino, forstjóri og stofnandi  One Degree)

14. Þú þarft ekki að taka þig of alvarlega.

“Ég held að það besta sem við gerum þegar við erum milli tvítugs og þrítugs sé að sleppa alveg að burðast með kvíða. Ég prófaði ótal margt nýtt þegar ég var á þessum aldri bæði í starfi og einkalífi og naut mín best þegar ég lét kvíða og annað ekki trufla mig. Flest af því  sem ég var að kvíða fyrir gerðist heldur ekki!”

(Anya Wallach, stjórnar The Random Farms Kids’ Theater)

15. Spáðu í af hverju þú ert hér og hvaðan þú kemur. 

“Ef þú trúir á skapara skaltu endilega kynnast honum/henni og þá uppgötvar þú skaparann í þér. Ef þú trúir ekki á skapara ættirðu að átta þig á að það mun vera einhver ástæða og hún góð fyrir því að þú ert hér á þessari plánetu. Þetta gefur þér sannarlega tilgang og tilgangurinn er sá kraftur sem knýr þig og aðra“.

(Alice Rhee, hefur tvisvar unnið til Emmy verðlauna fyrir sjónvarpsmyndir, aðalstjórnandi sjónvarpsefnis hjá PostTV).

16. Vandaðu val vina þinna. 

“Dýrmætasta lexía mín þegar ég var milli tvítugs og þrítugs var að athuga vel fólkið sem ég eyddi tíma mínum með. Notaði það tíma sinn og hæfileika vel og viturlega? Vissi það hvert það stefdi í lífinu? Það sést af vinahópi þínum hver þú ert!“

(Amy Palmer, hefur fengið margar tilnefningar til Emmy verðlauna, þáttastjórnandi, stofnandi og stjórnandi  PowerwomenTV)

17. Áttaðu þig á því að þú ert meira en starfið þitt.

“Þegar maður er tvítugur fellur maður stundum í það far að ætla að flýta sér að ná í eins mikið og eins fljótt og mögulega er hægt. Við förum jafnvel út á ystu brún og höldum að ekkert illt geti hent okkur.  En við getum meitt okkur. Í stað þess að fara svona að ættirðu að huga að því sem getur veitt þér gleði og hamingju. Þú ert meira en starfið þitt.  Þú ert margþætt manneskja. Hægðu á ferðinni, andaðu bara og taktu þér næði til að spá í að þú ert þinnar eigin gæfu og hamingu smiður. Og það á ekki bara við um starfið þitt”.

(Amanda Slavin, forstjóri og stofnandi Catalyst Creativ)

18. Vertu heiðarleg. 

” Það sem varð dýrmætast fyrir mig á árunum milli tvítugs og þrítugs var að þá lærði ég að vera heiðarleg við sjálfa mig, vera sönn í samskiptum mínum við fólk og að horfa raunsætt á sjálfa mig eins og ég kom fyrir úti í samfélaginu. Þetta hefur gefið mér dýmætt frelsi.”

(Tinia Pina, stjórnandi og forstjóri Re-Nuble)

19. Áttaðu þig á því að árin fljúga!   

“Ég er ekki að grínast. Æviárin líða hratt. Þú verður orðin þrítug áður en þú veist og þá spyrðu þig hvert árin hafi farið. Láttu til skarar skríða. Kannski tekst þér ætlunarverkið, kannski ekki en þú ert þó búin að reyna. Ef þig langar að gera eitthvað skaltu bara reyna! Ekki bíða með það“.

(Gene Gurkoff, stofnandi Charity Miles)

20.Hvað liggur á?

 “Mjög margir á þessum aldri eru á harðahlaupum þangað sem þeir ætla sér að komast: ljúka háskólanámi, koma sér fyrir í íbúðinni, ná starfsframa, höndla ástina ……….Þetta eru árin þegar það er í lagi að gera mistök en maður verður að læra af þeim.  Vertu ekki að flýta þér svona mikið að verða sú sem þú ætlar að verða. Njóttu þess að vera sú sem þú ert“.

(Alicia Quarles, New York fréttaritari E! News)

 

SHARE