Ég hugsa það á hverju hausti „Af hverju í ands***** býr maður á Íslandi???“. Allur gróðurinn er að veslast upp og deyja, með hverjum deginum finnur maður hvað loftið verður kaldara og kaldara og mannlífið verður alltaf minna og minna. Jú jú, ég er alveg kertamanneskja og finnst gaman og kósý að kveikja á kvöldum þegar fer að dimma, en það er alveg hægt að gera það í öðrum löndum líka. Bara ekki klukkan 4 á daginn eins og hér á Íslandi í svartasta skammdeginu.
Eftir að kreppan byrjaði hefur þessi hugsun komið æ oftar upp samt. Maður getur ekki lengur huggað sig við þá hugsun að „jú það er kannski dimmt og kalt en við erum þó á besta landi í heimi hvað allt annað varðar.“ Það er ekki þannig lengur. Þú getur ekki snúið þér við í Reykjavík án þess að það kosti þig 5000 kr, bensínið er í sögulegu hámarki, leiguverð er svívirðilegt, skattar hafa hækkað, matarverð er fáránlega hátt, tryggingar hafa hækkað og allt þar fram eftir götunum. Bakaríin hafa meira að segja takmarkað magnið af glassúr sem fer á hvern og einn kleinuhring og núna hylur glassúrinn ekki lengur hringinn heldur er bara svona ræma af glassúr efst á honum. KOMMON! Ég vil fá glassúr á ALLAN kleinuhringinn! Ég vil að hann límist við smjörpappírinn af því að það er svo mikill glassúr á honum. Annars kaupi ég mér hann ekki, eyði peningunum frekar í eitthvað annað.
En nóg um þennan kleinuhring.
Mig langar í ásættanlegt matarverð, bensínverð sem stenst heimsmarkaðsverð, föt sem eru í góðum gæðum án þess að kosta helminginn af því sem kostar fyrir dóttur mína að æfa fimleika í 5 mánuði. Ég vil geta farið í bíó án þess að sjá eftir peningnum, farið í leikhús annað slagið án þess að fá samviskubit, fara á kaffihús án þess að fá sjokk yfir verðunum og svo framvegis.
Nú er ég búin að pústa með „krepputalið“ og þið munuð aldrei lesa einn staf um þetta framar frá mér.
Amen
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.