Shelly Birger Philips skrifar pistla um foreldrahlutverkið og hún hefur hjálpað mörgum kúnnum sínum að komast yfir erfiða hjalla. Hún skrifar ýmsar greinar um foreldrahlutverkið eins og það kemur henni fyrir sjónir og það er margt sem hægt er að læra af henni ef maður er sammála aðferðum hennar. Eftirfarandi grein birtist hér og við birtum greinina hér íslenskaða og heimfærða. Það eru eflaust skiptar skoðanir á ráðum hennar eins og á öllu sem viðkemur uppeldi barna.
Þegar farið er að rýna í orðanotkun okkar við börnin okkar kemur í ljós að margt af því sem við segjum oftast við þau er alveg ótækt. Okkur gengur gott til en orðin sem vð notum kenna börnunum í raun að hætta að treysta dómgreind sinni, þau komast upp lagið með að þykjast, komast létt frá hlutunum og gefast upp um leið og á móti blæs.
Ég ætla að tína hér til nokkrar setningar sem þú ættir ekki að segja við börnin þín og býð upp á önnur orð sem væri hægt að nota. Þeim er ætlað að hvetja börnin og stuðla að auknum tilfinningaþroska.
“Gott hjá þér!”
Það versta við þennan frasa er að hann er oft runutuðaður við börn og notaður um eitthvað sem barnið lagði sig í raun ekki fram við. Barnið fer að hugsa að það standi sig alltaf ofsalega vel þegar mamma og pabbi segja að svo sé.
Í staðinn fyrir það sem þú sagðir mætti kannski segja:“Það var gaman að sjá hvað þú varst dugleg(ur) að reyna!” Ef við beinum athyglinni að því að barnið reyndi og lagði sig fram kennum við því að það skiptir öllu að reyna. Þó að ekki takist að ljúka verkefninu lærir barnið að það gengur líklega betur næst.
“Dugleg(ur)!”
Þó að hugsunin sé góð getur orðið haft þveröfug áhrif við það sem því var ætlað að gera. Flestir foreldrar segja þetta til að hvetja barnið og auka því traust. Barnið gerir eitthvað sem það var beðið um og þú kallar upp- dugleg(ur) og barnið hugsar að það hafi verið duglegt af því það gerði þetta viðvik.
Hvernig væri að segja frekar: “Mikið þykir mér vænt um að þú skulir taka svona þátt í því sem við erum að gera !” Þetta gefur barninu sannar upplýsingar um hvað þig langar til að sjá og að hegðun barnsins hafi í raun áhrif á þig. Þú gætir í öðru samhengi sagt við barnið: “Ég tók eftir að þú lánaðir vini þínum leikfangið þitt.” Þegar svona er talað saman getur barnið ákveðið sjálft hvort það er gott að deila með öðrum og þá velur barnið að gera það af innri hvötum en ekki bara til að þóknast þér.
“En fallegt hjá þér !”
Þegar við metum og dæmum það sem barnið okkar er að lita og teikna tökum við frá þeim möguleika þeirra að meta sjálft verkin sín.
Segðu heldur, “Já, þú notaðir rautt, blátt og gult. Viltu segja mér frá myndinni?” Ef við ræðum um það sem við erum að horfa á frekar en að meta það fær barnið næði til að meta sjálft hvort því finnst myndin falleg eða ekki. Kannski átti myndin alltaf að vera „hræðilega ljót“. Ef við biðjum barnið að segja okkur frá myndinn gæti það líka sagt okkur hvað það var að hugsa með myndinni. Það er færni sem alltaf er þörf á í lífinu.
“Hættu, segi ég , annars!”
Það er eiginlega aldrei skynsamlegt að hóta barni. Í fyrsta lagi er verið að kenna barninu að maður getur neytt aflsmunar til að ná sínu fram þó að ekki sé um samkonulag að ræða. Í öðru lagi ertu komin(n) í þá stöðu þegar þú hótar að annað hvort verður þú að fylgja hótuninni eftir eða þú getur hopað og þá áttar barnið sig á því að það er ekkert að marka hótanir þínar. Alla vega nærðu ekki þeim árangri sem þú vilt og átt á hættu að skemma samband þitt við barnið.
Það getur verið erftitt að standast freistinguna að hóta barni en reyndu að beina athygli þess að einhverju sem hentar betur en það sem er í gangi.“ Það er EKKI Í LAGI að slá bróður þinn. Hann getur meitt sig eða slegið þig og meitt þig. Ef þig langar að berja eitthvað gætirðu barið koddann þinn eða rúmið þitt”. Hér er barninu gefinn valkostur og barnið fær möguleika á að láta tilfinningar sínar í ljós. Þú tókst mark á tilfinningum barnsins og kenndir því að vinna úr þeim á annan hátt en stefndi að. Barnið er að læra sjálfsstjórn og heilbrigt tilfinningalíf.
“Ef þú _____ skal ég gefa þér _____”
Það er alveg glatað að múta börnum og truflar eðlilegt ferli sjálfssagðar samvinnu. Svona samskipti geta reynst hál ef oft er gripið til þeirra og geta hitt mann illa. “Nei! Ég tek ekki til í herberginu mínu nema þú kaupi Legó handa mér!”
Segðu heldur: “Þakka þér fyrir að taka til með mér!” Þegar við látum börnin heyra að við séum ánægð með þau og þakklát verður það þeim hvati til að halda áfram að hjálpa til. Ef barnið hefur ekki viljað taka mikinn þátt í neinu heima fyrir upp á síðkastið er ágætt að spjalla um hvernig þetta var áður. „ Það var svo notalegt þegar þú fórst alltaf út með ruslið. Takk fyrir það- enn og aftur!” Leyfðu barninu að komast að því að það er notalegt að hjálpast að og í sjálfu sér gefandi.
“Þú ert svo klár!”
Þegar við segjum börnunum okkar að þau séu klár ætlum við okkur að ýta undir sjálfstraust þeirra og sjálfsmyndina. En því miður virka svona sleggjudómar um manneskjur alveg þveröfugt. Þegar við segjum barninu okkar að það sé „svo klárt“ sendum við óviljandi þau skilaboð að það sé bara „klárt“ þegar það fær háar einkunnir og nær ýmsum markmiðum. Rannsóknir hafa sýnt að þegar við segjum við barn sem setti saman erfitt púsluspil að nú hafi það aldeilis verið klárt – reyni það yfirleitt ekki við enn erfiðara púsluspil á eftir. Og það er af því að barnið er hrætt um að þér finnist það ekki lengur „klárt“ ef það getur ekki lokið við enn flóknari púsl.
Segðu barninu frekar að þér finnist gaman að sjá hvað það leggur sig fram. Þegar við beinum athyglinni að því að leggja sig fram, að reyna, áttar barnið sig á því sem skiptir máli. Auðvitað er gaman að ljúka við púsl en það er líka gaman að reyna við púsl sem er enn erfiðari. Rannsóknin sem var minnst á áðan beindi líka sjónum að því að þegar við leggjum áhersluna á að reyna, leggja sig fram – eru miklu meiri líkur en ella á því að barnið reyni við enn erfiðari púsluspil.
“Ekki gráta.”
Það er ekki alltaf auðvelt að sjá barnið sitt gráta. En þegar við segjum við barnið: „Ekki gráta“ erun við að gera lítið út tilfinningum þess og segja því að alveg sé ótækt að sjá þessi tár. Börnin læra að byrgja tilfinningar sínar inni og það getur síðar meir valdið miklum sprengjum.
Reyndu að sinna barninu þínu þegar það er að gráta. Segðu t.d. „Það er ALLT Í LAGI að gráta“. Við þurfum öll einhverntíma að gráta. Ég ætla að vera hérna með þér og hlusta á þig. Þú gætir reynt að tala um það sem þú veist að hrjáir barnið. „Þú ert vonsvikin að við getum ekki gert það sem við ætluðum að gera, er það ekki?“ Þetta hjálpar barninu að skilja tilfinnignar sínar og það lærir fyrr en ella að tala um þær. Þegar við hjálpum barninu að ræða tilfinningar sínar hjálpum við því að hafa hemil á þeim. Og það er færni sem nýtist okkur öllum allt lífið.
“Ég lofa…”
Svikin loforð særa mann. Heilmikið. Maður veit ekki hvað dagurinn færir manni svo að það er skynsamlegt að sleppa alveg þessari setningu.
Þú ættir að reyna að vera heiðarleg(ur) við barnið þitt. „Ég veit alveg að þig langar að vera um helgina hjá henni Söru og við ætlum að reyna að sjá til þess að það geti orðið. Stundum gerist eitthvað hjá okkur sem við áttum ekki von á og þess vegna getum við ekki lofað að þetta takist um þessa helgi. Ef þú lofar að gera þitt besta verður þú í alvöru að gera þitt besta! Ef þú stendur við orð þín lærir barnið að treysta þér en þegar þú svíkur barnið versnar samband ykkar. Gættu þess vegna vel að því hvað þú segir og stattu við orð þín ef þú mögulega getur.
Ef þú getur ekki staðið við orð þín skaltu ræða það við barnið og biðjast afsökunar. Hafðu í huga að þú ert að kenna barninu þínu hvernig það á að haga sér þegar það stendur ekki við orð sín. Öll lendum við í því einhvern tíma að geta ekki staðið við orð okkar. Það getur í huga okkar verið eitthvað sem engu skiptir en gæti skipt barnið okkar miklu. Reyndu að koma heiðarlega fram og ef þér verður á í messunni skaltu taka þig á og gangast við hegðun þinni.
“Þetta er ekki neitt- neitt!”
Það eru til margar leiðir til að gera lítið úr tilfinningum barna og passaðu þig á þessari! Börnin líta ekki alltaf á hlutina sömu augum og við. Reyndu að skoða málin út frá sjónarhóli barnsins. Settu þig inn í tilfinningar barnsins þó að þú þurfir að setja mörkin og neita bóninni.
„Ég skil alveg að þig langar heilmikið að gera þetta en það er ekki hægt í dag“. Eða þú getur sagt:“Mér finnst leiðinlegt að þú skulir vera vonsvikinn en ég verð að neita þessu“. Í þessum svörum er miklu meiri virðing fyrir barninu en ef reynt er að segja því að það sem það langar að gera sé hálfómerkilegt.
“Af hverju gerðirðu þetta?”
Ef barnið þitt gerir eitthvað sem þér fellur ekki þarf að ræða það. En barnið þitt mun ekki læra af mistökunum þegar allt er á suðupukti. Þegar þú spyrð barn “AF HVERJU?“ þvingar þú það til að greina hegðun sína sem er þó nokkuð flókin athöfn fyrir fólk þó eldra sé. Mörg börn fara í varnarstöðu þegar þau eru krafin um svar við þessari spurningu.
Betra er að tala við barnið. Reyndu að átta þig á hvað það var að hugsa, hvernig því leið og hvað það langaði í. „ Varstu reið(ur) af því að vinir þínir hlustuðu ekki á þig?“ Það hjálpar barninu og oft á tíðum og foreldrunum líka að átta sig á tilfinningum og þörfum þess. Atvikið fær þá oft annan blæ. “Ó, hann beit vin sinn af því hann var í klemmu og þurfti að losna en kunni ekki að segja það.
Hann er enginn skelfir. Hann er bara 2ja ára!“