Formaður fræðslunefndar Samtaka grænmetisæta á Íslandi, Sæunn I. Marinósdóttir birti grein á vefsíðunni Innihald.is. Í greininni koma fram andsvör við mörgum þeim fordómum og rangfærslum sem birst hafa í almennri umræðu undanfarna daga, um uppeldi barna grænmetisæta. Við höfum fengið góðfúslegt leyfi til að birta greinina hér.
Við lifum á tímum þar sem við státum okkur af því að vera fordómalaus og fagna fjölbreytileika mannlífsins, en mér virðist stundum sem við þurfum að læra að virða hvern minnihlutahóp fyrir sig. Við þurftum (og þurfum enn) að læra að bera virðingu fyrir öðrum kynþáttum, fyrir konum, fötluðu fólki, samkynhneigðu fólki, mjög nýlega lærðum við að transfólk ætti skilið sömu virðingu og aðrir, við eigum enn í vandræðum með að umbera sum trúarbrögð og svo mætti lengi telja. Ennþá virðist hins vegar stór hópur fólks gefa sjálfum sér óheft skotleyfi á grænmetisætur.
Harkaleg skoðanaskipti hafa átt sér stað í athugasemdakerfi Vísis vegna fréttar um að grænmetisætur í Kópavogi fái ekki fæði við hæfi í leikskólum bæjarins. Margir hafa kastað þar fram harkalegri gagnrýni á foreldra sem gefa börnum sínum grænmetisfæði og á lífsstíl þeirra almennt. Mig langar að koma hér á framfæri nokkrum hugleiðingum varðandi helstu sjónarmið sem þarna koma fram.
Til þeirra sem misskilja hugtakið grænmetisæta:
Það að vera grænmetisæta snýst ekki um megrun eða átröskun og þetta er ekki áhugaklúbbur um ákveðna matargerð heldur í flestum tilfellum lífsspeki byggð á hugsjón. Sumir gerast grænmetisætur vegna umhverfisverndarsjónamiða, aðrir vegna dýraverndar, einhverjir vegna heilsufarslegra ástæðna og öðrum þykja dýraafurðir einfaldlega vondar á bragðið. Í flestum tilfellum þykir fólki sem tilheyrir þessum hópi tilhugsunin um að borða lambakjöt álíka girnileg tilhugsun og öðrum þætti fýsilegt að fórna gæludýri heimilins í kvöldmatinn. Þessar tilfinningar geta verið ákaflega sterkar og hvað sjálfa mig varðar lít ég á á mína matarhneigð sem jafnsterkt lögmál tilveru minnar og kynhneigðina. Einhver ósjálfráð leitni sem ég einfaldlega fæðist með og uppgötva á lífsleiðinni að er grundvöllur að lífsgildum mínum og hamingju.
Til þeirra sem hafa áhyggjur af auknum kostnaði og fyrirhöfn við framreiðslu grænmetisfæðis á leikskólum:
Ég hef séð tölum kastað fram um að kostnaðarverð máltíða leikskólabarna megi ekki fara yfir nokkur hundruð krónur á dag. Talað er um allt frá 100-400 krónum, en staðfestar upplýsingar hafa ekki komið fram. Þetta eru afskaplega lágar upphæðir og að mínu mati hrollvekjandi að hugsa til þess að svo naumt sé skammtað þegar kemur að næringu barna. Hins vegar er vert að benda á að almennt er mun ódýrara að elda grænmetisrétti en mat uppbyggðan af dýraafurðum. Með því einu að skoða kílóverð á baunum, korni, grænmeti og ávöxtum og bera saman við kjöt, fisk og t.d. ost, sést glögglega hve miklu munar. Að auki veldur það mér áhyggjum að eldaðar séu kjötmáltíðir undir mikilli sparnaðarpressu því ódýrustu kjötvörurnar eru mikið unnar og oft fullar af aukaefnum. Grænmetisfæði getur verið einstaklega næringarríkt, fljótlegt og hagkvæmt ef rétt er að því staðið. Þar að auki eru langflestir sammála um að auka þurfi hlutfall grænmetisneyslu til að bæta heilsu þjóðarinnar.
Væri því ekki prýðileg lausn á öllum þessum vanda að hafa uppistöðu máltíða úr jurtaríkinu en bjóða upp á kjötmeti og fisk aukalega með fyrir þá sem það vilja? Meðhöndla kjötmetið sem meðlæti frekar en öfugt? Með því að hafa grænmetisréttinn jafnframt mjólkur- og glútenlausan væri þörfum margra sérfæðishópa mætt á einu bretti, en jafnvel þó það hljómi framandi og flókið er slík matreiðsla sérlega einföld eftir að fólk hefur sett sig inn í lögmál hennar. Hægt væri að kenna hana á stuttu námskeiði fyrir matreiðslumenn leikskóla. Það að grænmetisfæði sé bara fyrir grænmetisætur er nefnilega svolítið tímaskekkt hugsun. Grænmetisfæði getur verið fyrir alla.
Til þeirra sem segja að börn ættu að fá að velja sjálf og ekki ætti að troða lífsstíl foreldranna upp á þau:
Langflestir foreldrar leitast við að ala börnin sín upp af alúð og umhyggju. Þeim er falið að veita þeim það uppeldi og umönnun sem þeir telja börnum sínum fyrir bestu. Þar með er foreldrum treyst fyrir innrætingu lífsgilda og lífsvenja, hvort sem um er að ræða áþreifanlega eða óáþreifanlega þætti lífsins. Ekkert barn kemst hjá því að mótast af skoðunum og gildum foreldra sinna, hvort sem um ræðir trú, siðferði, stjórnmálaskoðanir, forgangsröðu, uppáhaldsliðið í enska boltanum eða matarvenjur. Sem betur fer er mannlífið fjölbreytilegt og þeim fjölgar hratt sem velja að lifa á fæði úr jurtaríkinu. Það að ala börn sín upp á grænmetisfæði er gjöf þessara foreldra til barna sinna og réttlætismál fyrir þær fjölskyldur að fá að taka þátt í samfélaginu sem sjálfstæðir einstaklingar.
Flestar grænmetisætur sem ég þekki vildu óska þess að hafa verið alin upp á grænmetisfæði frá því í móðurkviði og sumar þeirra eiga því láni að fagna að hafa einmitt notið slíks uppvaxtar. Börn grænmetisæta eiga valfrelsi þegar þau vaxa úr grasi, en það eiga önnur börn líka. Hvers vegna er það talið réttara að börn geti valið að hætta að borða kjöt en að þau geti valið að byrja að borða það? Reyndar þekki ég fjölmörg dæmi þess að börn hafi óskað eftir að fá að gerast grænmetisætur en foreldrar þeirra þvertaki fyrir það. Eru slíkir foreldrar að „troða sínum lífsstíl“ upp á börnin sín? Raunin er sú að ekki er hægt að ala upp börn sem tómt blað þar til þau hafa þroska til að taka ákvarðanir um eigið líf og heilsu, enda væri það skrítið markmið.
Til þeirra sem hafa áhyggjur af næringarskorti barnungra grænmetisæta:
Ég hef engar rannsóknir séð sem styðja þá ályktun að börn séu í sérstakri hættu á næringarskorti ef þau lifa á grænmetisfæði. Hins vegar sé ég sífellt fleiri fréttir af slæmri næringarstöðu barna almennt. Ég velti því þ.a.l. fyrir mér hvort fólk hafi sambærilegar áhyggjur af börnum sem alast upp á einhæfu mataræði, mikið unnu fæði og jafnvel skyndibita. Ég fullyrði að það heyri til undantekninga ef grænmetisætur leggja ekki mikinn metnað og afli sér djúprar þekkingar á næringu þegar kemur að því að næra börn sín. Ef hefðbundið mataræði væri borið saman við það sem börn grænmetisæta fá að meðaltali er ég viss um að raunin væri sú að það síðarnefnda reyndist fjölbreyttara.
Til þeirra sem ásaka grænmetisætur um vanrækslu:
Ég vísa til fyrra svars en vil bæta við að iðulega hafa verið dregnar fram fréttir um börn grænmetisæta sem þjáðst hafa af næringarskorti. Sérstaklega vinsælt er að leita uppi ákveðna frétt frá Frakklandi þar sem barn grænmetisæta lést vegna næringarskorts. Þar er um að ræða vanrækslu á háu stigi og því miður fyrirfinnast slík tilvik hjá fjölda fjölskyldna. Fleiri börn hafa látist vegna næringarskorts en ég hef ekki séð neinn tileinka slíka harmleiki kjötneyslu foreldranna og dæma alla foreldra vanhæfa sem lifa á svipuðu fæði. Sumir foreldrar eru lélegir uppalendur og sumir þeirra eru glæpsamlega vont fólk. Það hefur ekkert með mataræði þeirra að gera.
Til þeirra sem telja eðlilegt að aðeins þeir sem hafa læknisvottorð fái sérfæði:
Sífellt vaxandi áhersla er á að styðja við einstaklingsbundnar þarfir og leyfa börnum að njóta sérkenna sinna. Samt er enn hópur fólks sem telur eðlilegt að meðhöndla leikskólabörn sem einsleita hjörð og hafa vit fyrir foreldrum þeirra varðandi hverju þau nærast á. Af hverju ætti einstaklingur að þurfa læknisvottorð til að fá að njóta sinnar einstöku tilveru? Ég get ekki skilið þau rök að leikskólayfirvöld varði um það hvaða ástæður liggja að baki matarvali barnanna. Það að hafa sjálfsákvörðunarrétt yfir því hvers konar mat við kjósum setja ofan í líkama okkar er afar persónulegur réttur sem getur tengst bæði sjálfsvitund okkar og dýpstu sannfæringu. Við búum við ætlað frelsi og ættum ekki að þurfa að leggja fram gögn til að öðlast samþykki hins opinbera fyrir lífsstíl okkar eða til þess að börnin okkar fái viðeigandi næringu í skólakerfi sem gefur sig út fyrir að styðja fjölbreytileika mannlífsins.
Að mínu viti er þetta sjónarmið á engan hátt í anda 2. gr. laga um leikskóla þar sem segir m.a.: „Starfshættir leikskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi, virðingu fyrir manngildi og kristinni arfleifð íslenskrar menningar“. Jafnframt eru tilgreind meginmarkmið leikskólanna: c) „að hlúa að börnum andlega, vitsmunalega og líkamlega í samræmi við þarfir hvers og eins svo að börnin fái notið bernsku sinnar“, d) „að stuðla að víðsýni barna og efla siðferðisvitund þeirra“.
—
Loks vil ég segja að sú ályktun að hið almenna mataræði Íslendinga sé grunnur og trygging að fullnægjandi og uppbyggingandi næringu er einfaldlega ekki á rökum reist. Að minnsta kosti ef marka má landskönnun á mataræði sex ára barna 2011-2012, þar sem í ljós kom að minna en fimmtungur barnanna neytti nægilegs magns af grænmeti og ávöxtum, að hlutfall óhollustu yximeð hækkandi aldri barnanna, og að 20-25% heildarorku úr mataræði kæmi úr fæðutegundum með lága næringarþéttni. Einnig kemur fram að: „Rannsókn á mataræði 15 ára unglinga árið 2003 sýndi að um þriðjungur af heildarorku kom úr kökum, kexi, sælgæti og ís, gosdrykkjum og öðrum sætindum.“, og: „að gæði fitu og kolvetna er ábótavant í fæði íslenskra barna“. Ofneysla á salti kom fram hjá 96% barnanna og niðurstöðurnar í heild sinni styðja þau rök að leikskólar, og skólar almennt, ættu að endurskoða rækilega stefnu sína í næringarmálum.
Höfundur greinar er Sæunn I. Marinósdóttir en hún er formaður fræðslunefndar Samtaka grænmetisæta á Íslandi.