Fann þessa æðislegu uppskrift á heimasíðunni Elhússögur.com.
Ég held að margar barnafjölskyldur kannist við það vandamál að erfitt reynist að finna matrétti sem hugnast öllum fjölskyldumeðlimum jafn vel. Yngstu krakkarnir okkar, þá sérstaklega Jóhanna Inga, eru alls ekki hrifin af fisk. Þau þurfa samt að smakka allavega einn bita af því sem er í matinn en það er voðalega leiðinlegt að vera með kvöldmat sem hluti af fjölskyldunni borðar ekki. Þess vegna er ég mikið sjaldnar með fisk í matinn en ég kysi sjálf. Í kvöld ákvað ég að prófa dálítið ,,fullorðinslegan” fiskrétt sem ég vissi svo sem fyrirfram að krakkarnir yrðu ekki hrifin af. Auk þess höfðu þau fengið fisk í hádegismatinn í skólanum. Ég útbjó því einfaldan pastarétt sem þau gæddu sér á, afar ánægð, á meðan ég útbjó fiskréttinn fyrir restina af fjölskyldunni. Í fiskréttinum var chorizo pylsa. Ég átti einmitt leið framhjá Pylsumeistaranum á Hrísateigi í dag og fór inn í þá verslun í fyrsta sinn. Ég hef ekki verið dugleg að nota slíkar pylsur áður og þekki almennt lítið til sterkra pylsa. Í boði voru spænskar og mexíkóskar chorizo pylsur og ég valdi þær fyrrnefndu, þær eru mildari. Rétturinn var góður en óvenjulegur þar sem að hráefnin voru önnur en ég er vön að nota. Fiskurinn er bragðmildur og blómkálsmaukið einnig en chorizo pylsan bragðsterk og hún gefur því mesta bragðið í réttinn. Rétturinn ætti því að slá í gegn hjá unnendum slíkra pylsa.
Uppskrift f. 4
Þorskur
- 800 gr þorskur
- ólífuolía
- sítrónusafi
- salt og pipar
- 1-2 blómkálshausar, skornir í bita
- 2-3 kartöflur, afhýdda og skornar til helminga
- salt
- 1-2 msk smjör
- 1-2 msk sýrður rjómi
- salt og pipar
- 3-4 msk furuhnetur eða saxaðar kasjúhnetur
- ca 1 dl olífuolía
- ca 150 gr chorizo pylsa, skorin í litla bita
- 2-4 skarlottulaukar, fínsaxaðir
- 1-2 hvítlauksrif, pressuð eða fínsöxuð
- ca 1/4 rauður chili, fínsaxaður
- 3 sólþurrkaðir tómatar, fínsaxaðir
- sítrónusafi
- ferskt timjan, fínsaxað
Best er að byrja á því að saxa og skera hráefnið í chorizosalsað.
Þorskurinn: Þorskurinn penslaður með blöndu af sítrónusafa og ólífuolíu og kryddaður með salti og pipar. Fiskurinn er bakaður í ofni við 200 gráður í 10-15 mínútur eða þar til hann er fulleldaður.
Blómkálsmauk: Kartöflurnar og blómkálið er soðið í ósöltuðu vatni þar til hvor tveggja er orðið mjúkt, ca. 10-15 mínútur. Soðvatninu hellt af og smjöri stappað saman við kartöflurnar og blómkálið. Fyrir fínna mauk er hægt að nota töfrasprota eða matvinnsluvél. Maukið er smakkað til með sýrðum rjóma, salti og pipar.
Chorizosalsa: Furuhneturnar (eða kasjúhnetur) ristaðar á þurri pönnu og þær síðan lagðar til hliðar. Olíu bætt á pönnuna ásamt chorizo pylsu og hún látin malla í ca. eina mínútu. Þá er skarlottulauk, sólþurrkuðum tómötum, hvítlauk og chili bætt út (magn eftir smekk). Þetta er látið malla á vægum hita í nokkrar mínútur. Að síðustu er hnetunum bætt út í ásamt timjan og salsað smakkað til með sítrónusafa.