Í dag, 16.desember, var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Reykjaness gegn Garðabæ. Konu á níræðisaldri voru þar dæmdar bætur eftir málaferli, en þau hafa staðið yfir við Garðabæ síðan í lok árs 2010.
Hús viðkomandi, sem ekki vill koma fram undir nafni, hefur verið dæmt ónýtt og óíbúðarhæft, bæði af dómkvöddum matsmanni snemma árs 2011 og með yfirmati sem fram fór á þessu ári. Í bæði skipti var um að ræða matsmenn sem hæfir voru vegna menntunar sinnar til að taka að sér slík verkefni.
Miklar skemmdir urðu á húsi gömlu konunnar sem rekja má til stórframkvæmda í næsta nágrenni þess, framkvæmdir þessar fóru fram á árunum 2008 og 2009 og gjörbreyttu þær jarðvegi og grunnvatni í nágrenninu.
Lögmaður konunnar, Sævar Þór Jónsson hdl, segir að þetta sé búið að reyna mikið á umbjóðanda sinn en ofan á þetta álag hafi konan þurft að jarða eiginmann sinn.
„Þetta er kærkomin jólagjöf,“ segir Sævar.
Garðabær telst ekki síst bótaskyldur þar sem sannað þykir að alls ekki hafi verið gætt þeirrar varkárni sem nauðsynleg er við framkvæmdir sem geta haft stórtæk áhrif á all umhverfi sitt.