Gerði þessa köku fyrst fyrir tæplega ári síðan og fannst hún algjörlega geggjuð. Það er eitthvað við hana sem mér finnst svo jólalegt og hátíðlegt. Hún verður svo mjúk og góð með perunum í og svo er alveg leyfilegt að bæta við kannski smá söxuðu súkkulaði út í deigið áður en hún er bökuð. Gaman að gera það svona ef maður vill gera ekstra vel við sig á góðum degi.
250 ml brætt smjör
200 gr sykur
250 gr hveiti
1 tsk lyftiduft
1 tsk kanill
50 gr heslihnetur smátt saxaðar
50 gr möndlur smátt saxaðar
50 gr pistasíur smátt saxaðar
50 gr pekanhnetur smátt saxaðar
100 gr dökkt súkkulaði
3 egg
1 msk möndludropar
2 ferskar perur skornar í bita
Ofan á kökuna:
150 gr súkkulaði(ég nota stundum appelsínusúkkulaði)
3 msk smjör
Blandið saman í skál sykur,hveiti,lyftiduft og krydd í skál.
Blandið öllum hnetunum saman í annarri skál en takið til hliðar 3 msk af þeim til að dreifa ofan á kökuna seinna – en blandið restinni saman við þurrefnið ásamt súkkulaðinu.
Þeytið saman egg, smjör og möndludropa og blandið því síðan hægt og rólega saman við þurrefnin. Blandið síðan perunum varlega út í með sleif, deigið er mjög þykkt.
Setjið í hringlaga form og bakið við 160°C í 50 mínútur en setjið þá álpappír yfir kökuna og bakið hana í aðrar 20 mínútur.
Látið kökuna kólna vel áður en þið bræðið súkkulaði með smá smjöri út í sem þið hellið yfir kökuna og dreifið hnetunum yfir sem þið tókuð til hliðar.
Berið fram með rjóma eða ís.
Hér má svo finna heimasíðu Krydd í tilveruna með Lólý