ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is
Þegar ég var 16 ára fann ég sjálfa mig heima hjá barnaníðingi á fimmtugsaldri. Þar bjó ég. Tveimum árum á undan hafði ég reynt að komast að á BUGL-i, en einhverra hluta vegna fékk ég ekkert viðtal, þó ég hafði tvívegis farið á neyðarmóttöku geðdeilarinnar. Fátt var um úrræði og fátt var um svör, og töldu félagsmálayfirvöld mig ekki þurfa á sálfræðiþjónustu að halda, þrátt fyrir mína beðni. Ég sat hvorki 9. né 10. bekk. Var að vísu send til skólasálfræðings vegna þess, en það var ekki gert til að aðstoða mig. Ég viðurkenndi sjö ár af kynferðislegri misnotkun, en ég mældist víst ekki nógu þunglynd. Samkvæmt skólasálfræðingnum var nákvæmlega engin ástæða fyrir því að ég gæti ekki mætt í skólann, ég var ekkert ólík jafnöldrum mínum í líðan. Ég get ekki sagt að ég hafi verið vandræðaunglingur, ég var hvorki skapstygg né í uppreisn. Lítið mál hefði verið fyrir hvern sem er að setjast niður með mér að spjalla, byggja traust, ég var einfaldlega viðkvæm og brotin. Ég var bara barn.
Þessi barnaníðingur var í rannsókn vegna brots á þessum tíma. Ég bjó með honum, og átti hvergi heima. Ég hafði enga sjálfvirðingu, og vissi ekkert hvað væntumþykja væri, eða hvernig hún liti út. Hann vildi eignast barn með mér. En bara litla stelpu. Hann vildi ekki að ég gengi í skóla, né ynni. Ég fann eftir hann barnaklám. Þegar ég var 17 ára komst ég í fyrsta skipti í viðtal til Stígamóta. Hann var ekki ánægður með það. En í kjölfar hjálpaði ráðgjafinn mér að komast á skólastyrk, en hún vissi að ég vildi ekkert meira út úr lífinu en að mennta mig. Þetta var mín eina leið og von til að komast úr fátækt, og fávisku. Þetta gekk í gegn ekki degi fyrr en á 18. ára afmælisdeginum mínum, ekki fyrr, því lög banna mér að flytja lögheimili frá foreldrahúsnæði fyrir þann tíma, og því engin aðstoð, né styrkur í boði. Tæpum þremur mánuðum áður hafði ég safnað saman þau litlu laun sem ég hafði milli handanna, og gengið út úr þessum aðstæðum sem ég bjó í. Stuttu síðar var níðingurinn sendur á Hraunið.
Næstu fjögur árin menntaði ég mig, og kláraði stúdentspóf. Þó ekki án átaka, því ég hafði fundið mig í slæmu ofbeldissambandi. Sá vildi heldur ekki að ég gengi í skóla, ynni, ætti vini, og svo vildi hann líka eignast barn með mér, svo ég færi aldrei frá honum. Næstsíðustu önnina hafði ég þó kjark í að slíta því sambandi, og þurfti að sæta ofsóknum þar til ég leitaði lögreglu. Ég stóð svo mikið ein, sama hvað stóð á. Eina sem ég hafði var þrautseigja, ráðgjafa í Stígamótum og p-pilluna til að vernda mig.
Næstu árin sem á eftir fylgdu voru mikil átök. Ég reyndi að koma mér fyrir í háskólanámi, án árangurs. Ég átti í miklum erfiðleikum með að vinna, álagði var engu líkt. Gat í raun bara verið í hlutastafi og var það nógu erfitt, og ekki gat ég lifað án hjálpar. Ég var í þetta skiptið heppin, þáverandi sambýlismaður minn reyndist mér blessun. Hann hvatti mig til að leita mér aðstoðar. Ég augljóslega fúnkeraði ekki. Hann sá það og ég fann það. Ég bara varð að koma mér í háskólanám. Ég ítrekað reyndi, hvert haust og hvert vor, en ég var farin að trúa því að mér væri kannski ekki ætlað að fara í háskólanám, kannski var ég of heimsk í það. Draumur minn molnaði. Aldrei vildi ég neitt heitar, frá því ég var barn, en að vera háskólamenntuð stelpa. Ég leitaði til sálfræðings, en án árangurs. Það virtist ekki málið að ræða bara um hlutina. Áföllin og sorgina. Ég hringdi í flest alla geðlækna sem gefnir eru upp í gulu síðunum. Enginn þeirra var að taka við nýjum sjúklingum. Ég var hvorki hæf til vinnu né skóla og mig vantaði aðstoð.
Háskólinn veitir engar undanþágur án greiningar, ólíkt minni reynslu af framhaldsskóla. Það sem ég gerði var að ég fór til taugasálfræðings. Ég fékk formlegu mína greiningu á lesblindu. En jafnframt fékk ég að vita að ég er yfir meðalgreind (og þá sérstaklega hvað varðar bóklegt nám). Það virtist þó ekki duga, eitt og sér að hafa greiningu til að koma mér fyrir í námi. Það var allt svo erfitt og ég gat illa sett hlutina í framkvæmd, þrátt fyrir mikinn viljastyrk.
Eitt haustið var mér betra en þau síðustu, og viti menn ég kláraði heila önn. Síðan urðu þær tvær. Þarna hafði ég í fyrsta skiptið getað áunnið mér rétt til námslána, og ég nýtti mér það. Eitt leiddi að öðru og ég sleit sambúð við eina og besta vin minn. Það vakti mér þó mikið óöryggi, vegna þess að námslán eru augljóslega ekki að fara framfleita mér, og hvað ef ég færi aftur í fyrra horf. Hvað ef?
Ég hélt að ég myndi deyja. Ég ætlaði mér að deyja. Lífið hafði kastað svo mikið í andlitið á mér og ég sá enga leið út. Mig langaði ekkert í annað en í öryggi og tækifæri. Vera sjálfri mér næg. Getað séð fyrir mér og betrumbætt mig í leiðinni. Ég hafði engan að nema fyrrverandi sambýlismann minn. Hann sagði mér eina ferðina enn: „þú verður að leita þér aðstoðar“. Ég hafði reynt. Ég hringdi aftur í alla geðlæknana og fékk svar frá einungis einum. Þó það. Það var betra en ekki neitt. Ég greindist með alvarlegan geðsjúkdóm. Sjúkdómur sem útskýrir hvers vegna ég hef átt erfitt uppdráttar, óháð öðrum áföllum.
Að biðja mig um að lifa án geðlækningaraðstoðar er eins og að kippa hjólastól undan lömuðum manni. Sért þú skilinn eftir, ertu þar bundinn, þar til einhver kemur þér til aðstoðar. Þú ert á miskunn annars fólks, og engin trygging er fyrir því að viðkomandi misnoti þig ekki.
Ég er mjög þakklát heilbrigðis- og lyfjakerfinu, þótt dýrt sé. Fyrir mig a.m.k. Sennilega eru þetta smáar upphæðir fyrir aðra, meðaltekjufólks og yfir. Það hefur aldrei verið að ræða annað en að leggja út fyrir eigið heilbrigði. Ég borga fyrst húsaleigu, svo fyrir lyf og lækni, síðan kemur matur og aðrir nauðsynjar.
Í dag er ég að berjast fyrir mínum réttindum, sem manneskja af lægstu stétt, til framfærslu með námi. Að vera í námi eru mikil forréttindi, og sem dæmi er það að hafa gott félagsnet það líka. En við lítum á þessa hluti enga síður sem mjög mikilvæga gagnvart velferð manneskjunar. Almennt þurfa þeir sem eru menntaðari síður á heilbrigðiskerfinu að halda, menntun eflir rétt kvenna, og það sama má segja um þá sem hafa um sig gott félagslegt net, fjölskyldu og vina. Við vitum það öll að það er ótrúlega verðmætt að eiga að fólk sem sýnir manni traust og væntumþykju. En hér erum við ekki að tala um mannréttindi, heldur forréttindi og velferð einstaklingsins.
Hvers virði er það, fyrir mig, manneskja af lægstu stétt, að fá að mennta mig?
Námslán duga ekki til framfæslu.
Sem námsmaður:
* Á ég ekki rétt til sérstakra húsleigubóta
* Á ekki rétt til fjárhagsaðstoðar
* Á ekki rétt til endurhæfingar með námi umfram 12 einingum
Fullt nám er metin jafngild fullri vinnu en ég hef aldrei unnið á vinnustað þar sem mér er heimilt að skrópa reglulega í 3 vikur vegna veikinda og fá greitt fyrir það. Ég hef aldrei unnið vinnu þar sem ég kemst upp með að mæta einungis í nokkra daga á þriggja mánaða fresti (þ.e.a.s. í lokapróf) og fá greitt fyrir það. Og annars fengið að vinna vinnuna mína heima, hvort sem um nótt eða að degi til, allt í samræmi við lyfjameðferð (og aukaverkanir þess) og getu hverrar stundar. Því þau lyf sem ég þarf að taka eru ekkert grín fyrir neinn mann og sú meðferð sem ég þarf verður líklegast ævilöng. Að takmarka einingar mínar, og setja upp endurhæfingarplan með starfshæfni í huga, í 18 mánuði er sennilega ekki að fara leysa minn vanda. Að framfylga slíku hefur reynst mér erfitt. Að öðrum kosti get ég hætt í námi og lifað á fjárhagsaðstoð. Því ég er engu síður óvinnufær og glími við afleiðingar sjúkdóms míns, óháð greind og námsgetu.
Mig langar einungis til að spyrja, fyrir hverja þessar reglur eru? Og hvaða gagn er í þeim, þegar lægsta og veikasta stéttin getur ekki notað þær, sér til uppdráttar.
Mynd fengin af http://www.slideshare.net/equalitytrust/the-spirit-level-slides-from-the-equality-trust og er heimild úr bókinnni “The Spirit Level: Why More Equal Societies Almost Always Do Better”