Ásdís Rán segist í samtali við Hún.is hafa verið svo heppin á árinu 2013 að hafa fengið að ferðast gríðarlega mikið en hún ferðaðist nánast mánaðarlega. Þegar við spurðum hana um hvernig hún ætlaði að eyða áramótunum segir Ásdís: „Gamlárskvöldi ætla ég að eyða með krökkunum mínum hjá mömmu niður á Skólavörðustíg. Það er alltaf stemning að vera niður í 101 og fara upp að Hallgrímskirkju þar sem þúsundir koma saman og fagna og skjóta upp.“
Ásdís segir að áramótaheit hennar verði, eins og hjá svo mörgum, að standa sig betur á flestum sviðum: „Svo hefur stefnan verið hjá mér síðustu ár að þegar ég verð 35 ára, þá ætla ég að vera í besta líkamlega formi ævi minnar þannig að það verður heit sem gaman verður að sjá hvort ég nái að negla, en ég verð 35 í ágúst 2014,“ segir Ásdís.
Aðspurð um það minnisstæðasta sem henti hana á árinu 2013 segir Ásdís Rán að það sé því miður ekki eitthvað sem hún geti deilt með fjölmiðlum. Hún segir jafnframt að árið hafi verið frekar rólegt og en það sé örugglega lognið á undan storminum sem komi væntanlega árið 2014 „Það verður velkominn stormur!“ segir Ásdís Rán að lokum.
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.