Við erum kannski varla skriðin yfir áramótin en tískuspekúlantarnir úti í heimi eru löngu búnir að ákveða hvað er heitt í vor! Nýlega var liturinn fyrir árið 2014 valinn af Pantone, en hann er Vibrant Orchid (svona bleikfjólublár, alveg gasalega smart).
Skoðum aðeins það sem koma skal í vor – og hver veit nema hægt sé að gera góð kaup á útsölunum!
- Pastel litir
Sterkir litir einkenndu árið 2013 en í vor verða pastellitirnir mjög áberandi. Raunar eru þessir mjúku litir þegar orðnir mjög áberandi á tískupöllunum hvort sem um er að ræða í fatnaði eða fylgihlutum. Grænir, bláir, ljósfjólubláir, bleikir og blíðir gulir tónar munu tröllríða öllu. Og það sem meira er, það er lítil kúnst við að klæðast þessum litum! Passaðu bara að klæðast ekki ljósgrænu frá toppi til táar, þú gætir litið út eins og einhvers konar myntuíspinni.
- Víðar buxur
Hér erum við að tala um VEL skálmavíðar buxur. Næstum Bianca Jagger á Studio 54-víðar. Þetta snið færir manni ákveðinn glamúr, eykur aðeins á hæðina og lengir leggina. Sem er kostur fyrir margan hobbitann.
- Midi-lengd á pilsum
Þetta snið er þegar farið að sjást í verslunum. Vítt pils sem nær niður á miðjan sköflung. Parað með sætri peysu og þú ert tilbúin í teboðin og veðreiðarnar! Þetta er þó aftur snið sem getur verið vandasamt að klæðast og hentar hávaxnari og grennri konum heldur en öðrum. Þessar lágvaxnari gætu hreinlega týnst og mögulega elst um ca. 30 ár á núlleinni.
- Stuttir jakkar
Hvort sem um er að ræða gallajakka, leðurjakka eða aðra jakka, þá munu þessir styttri jakkar (jafnvel mittisjakkar) vera áberandi í vor. Þeir smellpassa við næstum hvað sem er! Einnig getur verið smart að reyna að finna snið sem er hærra upp að aftan en að framan, það grennir örlítið mittið. Sem er ekki verra.
- Kragalausar kápur
Vaninn á vorin eru töff kápur með áberandi flottum kraga. Í ár er sagan önnur. Kragalausar kápur eru fáránlega flottar. Einfaldar í hálsinn en mögulega með frekara dúlli og áherslum á hnappa, falda og aðrar línur.
- Hnepptar flíkur
Hvort sem um er að ræða peysur, skyrtur eða buxur þá verður allt sem er hneppt að framan heitt. Það er líka ferlega hentugt hér á landi þar sem veðrið er óútreiknanlegt og betra að klæða sig í takt við það. Með því að geta hneppt frá sér er auðveldara að viðbúinn þegar hitabylgjan skellur á.
- Sportjakkar
Ekki kannski þessir glansandi með öðrum lit á fóðrinu, en sama hugmynd. Þessir léttu vorjakkar verða mjög áberandi þegar fram líða stundir.
Þetta ásamt öðru verður áberandi í vor. Nú eru útsölurnar í rífandi gangi og því um að gera að renna yfir slárnar og sjá hvort eitthvað gæti ekki nýst í vor. Pastel litir eru t.d. ekki nýir af nálinni og gallajakkar ekki heldur!