Á heimasíðunni Betrisvefn.is er svefnblogg þar sem hægt er að lesa mjög fróðlegar greinar og góð ráð um svefn ásamt öðrum heilsumolum.
Þessi grein fjallar um hvernig þú getur sofnað hraðar á kvöldin og við fengum leyfi til að birta hana á Hún.is.
——————————
Ef þú gætir gert einn hlut til bæta minni, auka orku, minnka fitu og lifa lengur, myndir þú gera það? Góðu fréttirnar eru að til að ná þessu öllu þá þarft þú bara að sofa betur!
Svefn er ein af stoðum andlegrar og líkamlegrar heilsu ásamt hreyfingu og mataræði. Þrátt fyrir það höfum við tilhneigingu til að líta svefninn hornauga og frekar stæra okkur af því að sofa sem minnst. Hver hefur tíma til að sofa lengi í nútímasamfélagi?
Lausnin er hinsvegar sú að við þurfum ekki endilega að sofa lengur, við þurfum bara að nýta svefninn betur. Hér eru mikilvæg atriði til að forðast ef þú vilt sofna hratt:
- Forðastu björt ljós klukkutíma fyrir svefn. Notaðu dimmer til að minnka birtuna og notaðu sólgleraugu um bjartar sumarnætur. Sjónvarp, snjallsímar og tölvur gefa frá sér mikla birtu og er mikilvægt að minnka birtustigið á kvöldin eða sleppa notkun. Þreytuhormónið melatónín stýrist af birtu og þarf aðeins 5 mínútna birtu til þess að stöðva myndun þess. Þú getur sett upp f.lux til að stýra sjálfvirkt birtustigi í tölvunni þinni byggt á sólarhringnum.
- Kaffi, grænt te og súkkulaði getur valdið vandræðum með svefn þó svo það sé tekið löngu áður. Ekki er mælt með að neyta þeirra eftir hádegi.
- Ekki stunda æfingar a.m.k tveimur klukkustundum fyrir svefn. Adrenalínið og hitinn í líkamanum hindrar eðlilega þreytu.
- Ekki hafa óreglu í svefndagskránni: Vaknaðu á sama tíma á hverjum degi jafnt um helgar sem virka daga. Það hjálpar þér við að stilla líkamsklukkuna.
- Ekki fá þér blund eftir klukkan þrjú á daginn. Blundur seinkar því að þreyta segi til sín á kvöldin.
Ef þú átt við langvarandi svefnvandamál að stríða og vilt sofna hraðar, auka orku og bæta minni er gott að athuga hjá þínum lækni hvort að svefnmeðferð sé viðeigandi. Þetta á sérstaklega við ef þú finnur einnig fyrir syfju og þreytu yfir daginn. Þú getur einnig athugað hvort meðferð henti þér með því að fara á heimasíðu okkar.