Það eru margir sem hafa þann slæma sið að kaupa bara og kaupa og hugsa um afleiðingarnar síðar. Svo kannski bara passar flíkin ekkert og þú dauðsérð eftir þessu þegar heim er komið. Spurðu þig þessara spurninga áður en þú dregur fram kortið:
1. Er verðið sanngjarnt? Auðvitað er misjöfn verðlagning hérlendis og stundum erfitt að finna einhvern gullinn meðalveg. Það er gott að reyna að hugsa hversu oft flíkin verður notuð og hvort verðgildi hennar sé í samræmi við áætlaða notkun.
2. Á ég eitthvað svipað? Hver hefur ekki fallið í þá gildru að kaupa alltaf mjög svipuð föt? Reyndu að rifja upp hvort þú eigir fimm eða sex svarta toppa og hvort sá sjöundi, sem þú heldur á, muni í alvöru breyta lífi þínu.
3. Dettur þetta úr tísku eftir korter? Reyndu að kaupa klassískan fatnað frekar en að elta allar tískubólur.
4. Fer þetta mér vel? Ekki kaupa eitthvað sem passar þér ekki eða passar ekki á þig! Ef þú þarft að grennast eða fitna eða breytast til að passa í flíkina skaltu skila henni. Kauptu eitthvað svipað eftir að breytingin gengur í gegn.
5. Passar þetta með öðru í skápnum? Til þess að fá sem mest út úr flíkinni skaltu reyna að ímynda þér með hverju þú myndir nota hana.
6. Er ég dolfallin fyrir flíkinni? Líklega sú spurning sem er hvað mikilvægust. Ef þú elskar ekki nýju flíkina er hæpið að þú notir hana, hvort sem hún uppfyllir öll skilyrðin hér að ofan eða ekki.