Þessi fiskibolluuppskrift hefur gengið fjölskyldna á milli í móðurættinni. Kannski með einhverjum breytingum í gegnum tíðina en grunnurinn er alltaf sá sami.
Þessi uppskrift gefur virkilega góðar fiskibollur. Stórir sem smáir munnar kjamsa á bollunum.
2 fiskflök (þorskur eða ýsa – best að hafa eitt og eitt)
2 laukar
3 egg
Spelt/hveiti
Kartöflumjöl
Salt
Pipar
2-3 msk hveitikím
Aðferð
1. Hakkið fiskflökin í matvinnsluvél.
2. Hakkið laukinn.
3. Brjótið 3 egg í glas.
4. Takið tvö glös í viðbót og látið spelt/hveiti og kartöflumjöl í sitthvort glasið svo verði jafn mikið og eggin – þannig að spelt/hveiti, kartöflumjöl og egg ná jafnhátt í öllum glösunum þremur.
5. Blandið fiskfarsinu, lauknum, eggjunum, speltinu/hveitinu og kartöflumjölinu vel saman í hrærivél.
6. Saltið vel og piprið.
7. Bætið 2-3 msk af hveitikími við og hrærið vel (má sleppa).
Ef lögunin er þunn skaltu bæta kartöflumjöli út í. Þú átt að geta mótað bollu í skeið og bollan á að halda lögun á pönnunni.
8. Setjið vel af olíu á pönnu og mótið hæfilegar stórar bollur með skeið. Steikið þar til góð gylling fæst á báðar hliðar.
Uppskriftin gefur 24 – 30 bollur (fer eftir stærð fiskflaka og lauks).
Gerir oftast 2 skammta fyrir miðlungs stóra fjölskyldu. Gott að skipta í tvo zip loc poka og setja í frysti. Þegar á að borða bollurnar er best að taka þær út um morguninn og baka þær við 170 gráður í 15-20 mín.
Ef það á að borða annan skammtinn strax er það bara eins nema ekki frysta. Grjón og sætar kartöflur er mjög klassískt meðlæti. Jafnvel brún eða karrýsósa.
Birna er tvítug Reykjavíkurmær. Hún er stúdent frá Verzlunarskóla Íslands og hefur mikinn áhuga á mataræði og heilbrigðum lífsstíl. Birna stundar Boot Camp, hlaup og lyftingar af kappi. Hún er dugleg að takast á við krefjandi áskoranir og leika lausum hala utan þægindarammans. Hvort sem það er utanvegahlaup, kraftlyftingar, þrekkeppnir eða annað í þeim dúr. Birna mun deila uppskriftum úr eigin tilraunaeldhúsi með lesendum Hún.is ásamt því að skrifa skemmtilega og upplífgandi pistla er snúa að heilbrigðum lífsstíl og sjálfsrækt.