Þegar ég var barn vissi ég fátt betra en að fá góðan plokkfisk og í raun hefur það ekkert elst af mér. Ég er mjög rög við að kaupa tilbúinn plokkfisk og kýs að gera hann sjálf heima frá grunni. Það er líka ótrúlega fljótlegt og kósý. Rjúkandi heitt speltrúgbrauðið gerir þetta svo að fullkominni máltíð.
Plokkfiskur
600 – 700 gr ýsa eða þorskur
600 gr. íslenskar kartöflur, soðnar
1 venjulegur laukur
350 ml fjörmjólk
50 gr. ósaltað smjör
3 msk spelt/hveiti
Salt og pipar eftir smekk
Gráðaostur
Aðferð
1. Saxið laukinn smátt og svitið hann í smjörinu á heitri pönnu
2. Hitið mjólkina upp að suðumarki í potti
3. Stráið speltinu/hveitinu yfir laukinn á pönnunni og hrærið vel – látið malla í 1-2 mín.
4. Hellið mjólkinni hægt og rólega í nokkrum skömmtum út á laukinn og hrærið vel – leyfið sósunni svo að þykkna
5. Skerið fiskinn í litla bita og steikið létt á pönnu – þar til hann hættir að vera glær (líka tilvalið að nota afgangs fisk)
6. Setjið fiskinn út í sósuna og hrærið vel svo hann losni vel í sundur
7. Salta og pipra
8. Flysjið kartöflurnar og skerið í litla bita – hellið svo út á pönnuna og blandið vel saman
9. Smyrjið eldfast mót með smá olíu og hellið plokkaranum í
10. Stráið gráðaosti yfir og bakið í 8-12 mín við 180°C
Speltrúgbrauð
Uppskrift lítillega breytt – upphafleg uppskrift er frá heimasíðunni www.lifreant.is
2 ½ dl fínt spelt
2 dl rúgmjöl
1 msk vínsteinslyftiduft
½ tsk salt
6 fínt saxaðar döðlur
1 dl AB mjólk
1 1/3 dl volgt vatn
Aðferð
1. Steinhreinsa döðlurnar og saxa smátt
2. Blanda öllu hráefninu saman og hræra vel
3. Smyrja lítið brauðform með olíu og strá rúgmjöli yfir (svo brauðið festist síður)
4. Þjappa deiginu vel í formið og baka við 180°C í 25-35 mín.
5. Gott að vefja brauðið í rakt viskastykki og bera fram
Birna er tvítug Reykjavíkurmær. Hún er stúdent frá Verzlunarskóla Íslands og hefur mikinn áhuga á mataræði og heilbrigðum lífsstíl. Birna stundar Boot Camp, hlaup og lyftingar af kappi. Hún er dugleg að takast á við krefjandi áskoranir og leika lausum hala utan þægindarammans. Hvort sem það er utanvegahlaup, kraftlyftingar, þrekkeppnir eða annað í þeim dúr. Birna mun deila uppskriftum úr eigin tilraunaeldhúsi með lesendum Hún.is ásamt því að skrifa skemmtilega og upplífgandi pistla er snúa að heilbrigðum lífsstíl og sjálfsrækt.