Jón Gnarr, borgarstjóri Reykjavíkur hefur gefið það út að hann muni ekki sækjast eftir endurkjöri á næsta kjörtímabili. Í viðtali sem tekið var við hann og birt á TheHiveReporters.com, er Jón einlægur og segist alveg harðákveðinn í því að hætta sem borgarstjóri. „Þessum kafla í lífi mínu er lokið,“ segir Jón.
Fólk hélt að hann myndi missa húmorinn
Þegar Jón er spurður út það hversu mikið af Jóni Gnarr borgarstjóra sé leikarinn og hversu mikið af honum sé stjórnmálamaðurinn, segir Jón að hann sé bara ein manneskja. Hann segist oft vera spurður að því hvort hann sakni ekki gamla lífsins síns. Lífið sé vissulega aðeins öðruvísi en samt alltaf það sama. „Mér fannst mjög áhugavert að þegar ég var nýsestur í stól borgarstjóra, virtist fólk hafa þá tilfinningu að nú væri ég bara orðinn „pólitíkus“ og það myndi breyta persónuleika mínum. Ég myndi hægt og rólega missa allan húmor,“ segir Jón.
Fatlaður þegar kemur að því að skipuleggja og áætla
Blaðamaðurinn spyr Jón út í skólaárin hans, hvort það sé satt að Jón hafi verið greindur geðfatlaður, fyrir mistök, þegar hann var barn. Þá hlær Jón og segir: „Voru það einhver mistök?“ en bætir svo við: „Ég hef mínar takmarkanir en ég man ekki hvað enska heitið er fyrir þetta, þetta er eins og blanda af ADD og Asberger og eitthvað eitt annað. Ég er gangandi andstæða því ég er með frjótt ímyndunarafl en mjög takmarkaða rökhugsun, svo ég er mjög fatlaður þegar kemur að því að skipuleggja og áætla,“ segir Jón Gnarr í þessu frábæra viðtali.
Ísbjarna-elliheimili á Íslandi
Í lok viðtalsins spyr blaðamaðurinn út í þann draum Jóns um að fá ísbjörn í Húsdýragarðinn. Jón svarar því til að það hafi verið eitt af fáu sem honum hafi verið alvara með. „Flest dýrin sem villast hingað til Íslands eru gömul karldýr og það sé engin ástæða til þess að senda þau til baka, því tennur dýranna sé að detta úr þeim og þau eru orðin þreytt og lúin. Það ætti því bara að vera ísbjarna-elliheimili hér á landi. Það gæti verið falleg hugmynd,“ segir Jón Gnarr.
Hér geturðu svo lesið viðtalið í heild sinni.
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.