Ljúffengt fiskifat og rósmarín kartöflur – Uppskrift

Á mínu heimili reynum við að hafa fisk í kvöldmatinn að minnsta kosti tvisvar í viku. Ég er mjög gjörn á að prófa eitthvað nýtt og leika mér með hráefnið. Ýsa og kartöflur er alltaf algjört lostæti og það má útfæra það á marga ólíka vegu. Karrí kemur reglulega við sögu í tilraunaeldhúsinu og gerði það gott mót í þessu ljúffenga fiskifati. Virkilega hollt og gott í miðri vinnuviku. Ég bar fatið fram með rósmarín kartöflum, soðnu bankabyggi og grænmeti. Allir fóru sáttir og sælir frá borði, enda ekki við öðru að búast.

Fiskifatið

600 – 700 grömm ýsa eða þorskur

1 msk jómfrúarólífuolía

1 venjulegur laukur

2 hvítlauksrif

1 cm bútur engifer

1 ½ msk milt karríduft

2 tsk cumin

salt og pipar

400 ml kókosmjólk (ekki fituskert eða “lite”)

1 msk maizena + ¾ dl vatn

½ rauð paprika

1 brokkolíhaus

5-6 sveppir

¼ ferskur ananas

Konfekttómatar

½ gráðaostur

 

Rósmarín kartöflur

500 gr. kartöflur

1 msk jómfrúarólífuolía

2 tsk rósmarín

1 tsk paprikuduft

 

Aðferð – Fiskifat

1. Hitið olíu á pönnu og steikið saman lauk, engifer og hvítlauk í 3-4 mínútur

2. Bætið karrídufti, cumin, salti og pipar á pönuna og blandið öllu vel saman.

3. Hellið kókosmjólk út á pönnuna og látið malla í nokkrar mínútur.

4. Hrærið maizena mjölið út í vatni og hellið því á pönnuna. Leyfið sósunni svo að malla áfram á vægum hita og þykkna.

5. Skerið niður papriku, brokkolí, sveppi og ananas og bætið við sósuna. Hafið áfram á pönnunni á vægum hita meðan þið hugið að fiskinum. Hrærið reglulega upp í.

2014-02-19 18.32.27

6. Hitið vatn í potti þar til fer að sjóða. Skerið fiskinn niður í miðlungs stóra bita.

7. Látið fiskinn út í sjóðandi vatnið í 1 mínútu og takið þá aftur upp úr. Þannig losnið þið við vökvann úr fiskinum.

8. Færið grænmetis- og karrýblönduna í eldfast mót.

9. Leggið fiskinn ofan á grænmetið. Skerið konfekttómata í fernt og raðið þeim ofan á. Saltið og piprið.

2014-02-19 18.57.56

10. Myljið gráðaostinn yfir og bakið við 175 gráður í 12-15 mínútur.

2014-02-19 19.15.44

11. Takið út og berið fram ásamt meðlæti.

2014-02-19 19.17.11

 

Aðferð – Rósmarín kartöflur

1.Sjóðið kartöflur í potti.

2.Hitið pönnu með olíu. Flysjið kartöflurnar, skerið þær í fernt og steikið upp úr olíunni. Bætið við rósmarín og paprikudufti. Hrærið vel saman.

2014-02-19 19.12.11

3.Steikið á miðlungs hita í nokkrar mínútur, fer eftir því hversu gylltar þið viljið hafa þær.

4. Berið fram.

2014-02-19 19.13.24

 

 

SHARE