Sex strákar í Verzlunarskóla Íslands og hafa stofnað fyrirtækið Hulsa í frumkvöðlaverkefni undir formerkjum Ungra Frumkvöðla. Þeir eru að framleiða boli með landslagsmyndum úr íslenskri náttúru og eru að fara að selja bolina á vörumessu í Smáralind um helgina. Við spurðum drengina hvernig þessi hugmynd hafi orðið til: „Hugmyndin kviknaði eiginlega þegar einn af okkur var að skoða ljósmyndir af íslensku landslagi eitt kvöldið og fann svo mynd sem honum fannst passa svo rosalega vel á bol,“ segir Hermann, einn af frumkvöðlunum. „Okkur hafði fundist vanta fjölbreytni á bolamarkaðinn og þá sérstaklega á Íslandi. Við gerðum svo umfangsmikla markaðskönnun til þess að sjá hvort að fólk hefði áhuga á að kaupa svona tegund af bolum og sú var raunin.“
Eins og fyrr segir eru íslenskar landslagsmyndir á bolunum og spurðum við Hulsu hvaðan þeir fengju myndirnar: „Myndirnar fáum við frá íslenskum ljósmyndurum. Við í Hulsu höfum haft þá hugmynd frá byrjun að styðja við íslenska ljósmyndara með þessum hætti. Á bolunum sem við erum að bjóða upp á í dag erum við að nota myndir sem þeir Snorri Björnsson og Tómas Freyr Kristjánsson tóku. Við eggjum mikið upp úr góðu samstarfi með þeim og einnig erum við mjög opnir fyrir nýjum ljósmyndurum til að vinna með.“
Bolirnir verða til sölu í Vörumessunni í Smáralind um helgina, 7.- 8. mars og eftir það munu þeir taka við pöntunum á Facebook-síðu sinni. „Við hvetjum sem flesta til þess að koma í Smáralindina um helgina og kíkja við í básinn okkar þar sem við lofum Hulsugóðri skemmtun,“ segir Hermann að lokum.