Fjölbreytt dagskrá í heila viku vekur börn og ungmenni til vitundar um fjármál
Nemendur Salaskóla og Háteigsskóla hringdu inn alþjóðlega fjármálalæsisviku við opnun markaða í gær, mánudag. En til stuðnings eflingar fjármálalæsis hafa margar af fremstu kauphöllum heims boðið ungu fólki að hringja bjöllum til að marka upphaf alþjóðlegrar fjármálalæsisviku við opnun markaða.
Þetta er í fyrsta sinn sem hátíðin er haldin á Íslandi en alls taka þátt yfir 100 lönd í öllum heimsálfum. Dagskrá vikunnar er fjölbreytt og er aðgengileg á www.fe.is og á fésbókarsíðu vikunnar.
Alþjóðleg fjármálalæsisvika á Íslandi er hluti af alþjóðlegri vitundarvakningu sem ætlað er að vekja athygli á mikilvægi fjármálalæsismenntunar og stuðla að viðhorfsbreytingu þegar kemur að fjármálum. Hollenska góðgerðarhreyfingin Child and Youth Finance International stendur að átakinu á alþjóðavísu. Hreyfingin vinnur að eflingu fjármálalæsis og aðgengi barna og ungmenna að öruggri og barnvænni fjármálaþjónustu um heim allan. Hreyfingin nýtur stuðnings margra framámanna og stofnana á heimsvísu, þar á meðal aðalritara Sameinuðu þjóðanna, Ban-Ki Moon.
„Fjármálalæsi er ákaflega mikilvægt, og nauðsynlegt að gera sér snemma grein fyrir því hvernig peningar og efnahagskerfið virkar. Ungt fólk tekur virkan þátt í neyslu þjóðfélagsins og þurfa í ríkari mæli að taka ákvarðanir sem geta haft langtímaáhrif á fjárhag sinn,“ segir Breki Karlsson, forstöðumaður Stofnunar um fjármálalæsi. „Við þurfum að efla fjármálalæsi næstu kynslóðar til þess að forða þeim frá því að þau endurtaki sömu mistök og við.“
Að alþjóðlegri fjármálalæsisviku standa Arion banki, Fjármálaeftirlitið, Fjármálaráðuneytið, hópur nemenda í MPM námi í Háskólanum í Reykjavík, Meniga, NASDAQ OMX kauphöllin, Neytendastofa, Seðlabanki Íslands, Stofnun um fjármálalæsi, Umboðsmaður skuldara og Viðskiptaráð.
Myndatexti:
Magnús Garðar Geirlaugsson, Hilmar Hafsteinn Dagbjartsson frá Salaskóla
Karl Orri Brekason og Steinn Kári Brekason frá Háteigsskóla