Fæddur 23.apríl 2012 kl 06:38
Ég byrjaði að finna fyrir hríðum um klukkan 13:00 þann 22.apríl. Þá var ég nývöknuð, og þegar ég fór að pissa kom blóðugt slím í pappírinn. Verkirnir komu bara í mjóbakið þannig að ég var dálítið á báðum áttum með hvort þetta væri byrjað eða ekki. En eftir 2 klukkustundir var ég orðin frekar viss um að nú færi að bætast við í fjölskylduna.
Um klukkan 18:00 hringdi ég í douluna mína og lét hana vita að ég væri með hríðir og að nú færi að styttast í ferð uppá spítala. Hún kom klukkustund seinna, en Andri og Elmar Blær (eldri sonur minn) voru ekki ferðbúnir, þannig að við doulan fórum á undan á hennar bíl. Þegar ég kom uppá Hreiður varð ég fyrir rosalega miklum vonbrigðum, ég var bara komin með 1 í útvíkkun en leghálsinn var samt búinn að styttast um 3.5 cm (0.5 cm eftir).
Við fórum aftur heim (um 20:00) og stuttu seinna fór eldri sonur minn í pössun. Um klukkan 22:00 voru verkirnir orðnir rosalega harðir, en voru enn bara í mjóbakinu þannig að ég ákvað að reyna að þrauka allavega til 0:30 – 01:00 ca.
Klukkan 01:00 fannst ég tími til kominn að fara uppá spítala aftur. En þegar þangað var komið kom í ljós að ég var bara með 3 í útvíkkun. Ljósmóðirin sem skoðaði mig náði þó að auka útvíkkun upp í 4. Svo fórum við bara inn á fæðingarherbergi og reyndum að hvíla okkur.
Klukkan 04:00 var ég komin með alveg skelfilega verki (enn bara í bakinu), ég var farin að gráta með þeim og mér kveið alltaf fyrir næsta verk. Þarna var ég farin að nýta mér glaðloftið. Ég vildi fara í baðið, en ljósmóðirin ákvað að gá með útvíkkun og hvort hún gæti sprengt belginn áður en ég færi ofan í. EN ég var ennþá bara með 4 í útvíkkun þannig að hún vildi ekki sprengja hann. Mér var boðið að fara annaðhvort í bað eða að fá sprautað verkjastillandi og sljóvgandi í vöðva. Ég er rosalega nálahrædd þannig að ég vildi byrja á að fara í bað.
Þegar ég var búin að vera í baðinu í ca. 2 mínútur þurfti ég alveg rosalega mikið að pissa, þannig að ég fór uppúr. En þá bara lak allt á gólfið, og ég hafði semsagt verið að missa vatnið
Á þessum tímapunkti, um 04:15 ca., ákvað ég að fá þessa sprautu. Miðað við hvað þetta var að taka langan tíma fannst mér ég verða að sofna aðeins fyrir aðal átökin. Ég nýtti mér glaðloftið og knús frá Andra á meðan hún sprautaði mig. Svo náði ég að sofa til ca. 5:30, en ég vaknaði samt nokkrum sinnum við harkalegar hríðar og fékk mér glaðloft.
Klukkan 5:30 var ég bara komin með 6 í útvíkkun. Þarna spurði ég hvort ég mætti ekki bara fara í keisaraskurð!
Svo man ég lítið meir. Það var mikið verið að snúa mér, og líklega um 06:15 heimtaði ég að fara uppá fjórar fætur. Þá fór ég að finna rembingsþörf og rembdist, en mér fannst ég öll vera að rifna í sundur þarna niðri þannig að ég hélt ósjálfrátt aftur að mér. Ég heimtaði að fá spangardeyfingu spreyjaða á mig sem ég fékk fyrir hálft orð
Ég rembdist um stund á hægri hliðinni en ekkert gerðist. Það var eitthvað vandamál með hjartsláttinn hans Alexanders, þær voru ekki alveg vissar hvort þær finndu hjartsláttinn og stressuðu mig pínu upp þannig að á þessu augnabliki hætti ég að vera hrædd um sjálfa mig. Ég náði einhvern veginn að vippa mér yfir á bakið, og í 4-5 rembingum kom drengurinn út. Hann kom beint uppá magann á mér og grét ekki einu sinni. Andri klippti á naflastrenginn og svo fæddi ég fylgjuna í einum rembing. Það leið semsagt klukkustund frá því að ég var með 6 í útvíkkun og þar til ég fékk drenginn í fangið
Það var farið eftir öllum óskum okkar, og Andri og doulan voru alveg yndisleg þarna mér við hlið ”
Fallegur snáði með kyssulegar varir