Hinar raunverulegu minningar

Ég hef heyrt allskonar hluti um minningar. Sumir hafa sagt að maður eigi engar minningar fyrr en eftir ákveðinn aldur og að sumar minningar séu bara „búnar til“ í undirmeðvitundinni, hafi kannski aldrei átt sér stað, hafi verið draumur eða jafnvel hafi maður búið hana til (ómeðvitað) eftir frásögn, til að mynda foreldra, af einhverju sem maður gerði eða sagði.

Ég bjó í Kópavogi fyrstu ár ævi minnar, í blokk sem oft er kölluð Kínamúrinn eða Langa vitleysa, en hún er, eins og nafnið gefur til kynna, ótrúlega löng og hýsir endalaust mikið af fólki. Ég á mjög fáar minningar frá þessum árum, en ég man eftir lyktinni af sápunni á leikskólanum mínum, stoltinu sem fylgdi því að fá að vera með kokkahúfuna á matmálstímum og fá að hjálpa við að koma matnum í krakkana. Ég man eftir áferðinni á rennibrautinni sem var á bakvið Kínamúrinn og mig rámar í hvernig bragðið var af sandinum í sandkassanum. Ein af mínum uppáhaldsminningum er samt örstutt og hún er þannig að ég sit á koppnum mínum fyrir framan stóra túbusjónvarpið okkar og ég er svo stolt að ég er að deyja, ég var að pissa í kopp, ég var orðin SVO stór.

Ein minning er þó ljóslifandi frá þessum árum en þá hafði ég verið að renna mér í rennibrautinni og átti svo bara að koma inn þegar ég væri hætt. Ég fór inn í blokkina og upp að dyrunum heima og dinglaði. Það kom enginn til dyra og ég bankaði og bankaði og heyrði ekkert hljóð. Ég man að ég fylltist ótta og örvæntingu: „Hvar var mamma mín? Og pabbi? Og bræður mínir?“ Ég fór að gráta og lamdi og barði í dyrnar og kallaði á mömmu mína. Eftir smá stund og mikla dramatík heyri ég allt í einu: „Kidda mín?“ og þetta var mamma mín, hún var að koma hlaupandi niður stigann því ég hafði verið á hæðinni fyrir neðan og þar var augljóslega enginn heima. En vá hvað ég var fegin að endurheimta mömmu mína og ég sá svo, þegar ég leit á hurðina að það var ekkert skilti með nöfnunum okkar á þessari hurð. O jæja, en ég var komin heim!

 

 

SHARE