Því miður þá hef ég lent í þeim ógeðslega atburði að hafa orðið fyrir nauðgun. Að verða fyrir nauðgun er ekkert til að skammast sín yfir þar sem það var lítið sem ekkert sem manneskjan gat gert, þess vegna vil ég segja mína sögu.
Fyrir viku hefði ég ekki getað það því þá skammaðist ég mín ennþá en núna er ég komin yfir það að skammast mín núna tekur við að læra að lifa með þessu, það er erfitt en það er hægt. Ég fer ekki í gegnum einn dag án þess að hugsa um þetta og það mun aldrei breytast en ég mun kunna að lifa með þessu í framtíðinni. En þó ég sé að segja frá þá er það mjög óþægilegt og erfitt.
Fyrir 1-2 vikum hefði ég ekki getað þetta því ég brotnaði niður bara við að heyra orðið nauðgun, en ég er loksins orðin nógu sterk til að segja frá! Mig hefur lengi langað að opna mig með þetta og segja mina sögu en ég þori því ekki, því flest allir nú til dags dissa allt og ef maður segir frá er maður bara að biðja athygli en það er ekki svoleiðis. Það er bara svo gott að segja frá, það er eins og maður losni við 100000kg úr líkamanum sínum!!!
En árið 2008 varð ég fyrir kynferðislegri áreitni af svokölluðum stjúpafa mínum, þá aðeins 11 ára gömul. Það var hræðilegt, ég fór úr því að vera lítil, hress og glaðlynd stelpa í að vera lítil, leið, hrædd og bjargarlaus. Ég fékk ömurlegasta svar frá stjúpömmu minni sem hægt var að fá: „ef þetta gerist aftur þá losa ég mig við hann“ AFTUR? Að segja þetta við 11 ára stelpu eftir að hafa lent í svona er ógeðslegt, ég þorði aldrei að fara í heimsókn til þeirra eftir þetta því ég var svo hrædd við hann. Maðurinn átti við mjög mikið drykkjuvandamál að stríða en enginn gerði neitt, því miður. Þó það séu 6 ár frá þessu atviki þá man ég þetta eins og þetta skeði í gær, það er erfitt en ég er að læra að lifa með því, því ekki er hægt að spóla til baka og láta þetta ekki gerast.
Svo núna í fyrra upplifði ég þá ógeðslegu lífsreynslu að verða fyrir nauðgun og það af strák sem ég kallaði vin minn. Þetta var planað hjá honum og gaf hann mörg merki um það sem ég var ekkert að pæla í þarna þar sem ég var bara að heimsækja vin minn. En þegar ég hugsa um þetta þá sé ég mörg merki um að þetta hafi verið planað. Hann bað mig að stunda kynlíf með sér og alltaf sagði ég nei. Þangað til að ég fraus, nei-ið mitt var tilgangslaust, það hafði enga merkingu, það virkaði ekki. Ég beið eftir að þetta væri búið og svo hljóp ég heim. Eftir þetta notaði ég nei mjög sjaldan þar sem mér fannst það bara ekki hafa neina merkingu lengur, ég var mjög lengi að átta mig á því að ég gæti notað það þó það hafi ekki virkað þarna.
Svo voru sögð við mig verstu orð sem hægt er að segja við manneskju eftir svona atvik, „þú áttir þetta bara skilið að vera nauðgað“, „það var bara gott á þig“ og „þú vissir alveg að þetta myndi gerast“. Þegar þetta var sagt við mig þá brotnaði ég svo mikið að mér fannst ég hafa bara dáið innan í mér. Ég hugsaði mikið um að þetta væri bara mér að kenna og ef ég hefði ekki viljað þetta þá hefði ég gert einhvað til að losna. En það að losna frá svona er ekki jafn auðvelt og að segja það því maður bara frýs og líkaminn manns verður máttlaus. Á þessum tíma fannst mér eina lausnin að losna við það að líða svona ógeðslega væri bara að fremja sjálfsmorð. Sem betur fer fékk ég aðstoð áður, ég fór á Stígamót og talaði við eina yndislega konu þar sem er búin að hjálpa mér í gegnum þetta ferli. Ég skammaðist mín fyrst að fara þangað, sagði engum frá. Í fyrsta tímanum langaði mig að hringja og segjast vera veik bara svo ég þyrfti ekki að fara, en sem betur fer ákvað ég að fara því þetta er búið að hjálpa mér svo mikið. Ég er hætt að skammast mín að vera þarna, ég er bara glöð að vera þarna og vera að fá hjálp við mínum vandamálum.
Ástæðan fyrir að ég vil segja mína sögu er að ég vil að fólk viti að þetta er ekkert djók þetta er mjög alvarlegur hlutur sem hefur áhrif á allt líf manns. Fólk er byrjað að nota nauðgunarorðið sem bara einhvað djók og er með því bara að gera lítið úr okkur sem hafa lent í þessu og það eru alls ekki fáir sem hafa lent í þessu því miður. Það að heyra einhvern vera að djóka með svona gerir það ógeðslega erfitt að þora að segja frá því maður verður hræddur um að það verði bara gert grín af manni.
Ég vil að allar stelpur viti að það er miklu betra að segja frá og fá hjálp heldur en að halda þessu inni það gerir allt miklu verra. Það er erfitt að segja frá en það er betra fyrir þig, það verður auðveldara að anda það er eins og þú losnir við mörg kíló. Með því að segja frá lærirðu líka að lifa með þessu og lærir að þú þarft ekki að skammast þín fyrir þetta því þetta var ekki þér að kenna.