Maskari er sú förðunarvara sem mest er notuð þegar leggja skal áherslu á augun. Til er gríðarlega mikið úrval af möskurum sem hafa mismunandi eiginleika. Sumir þykkja og lengja, aðrir hafa aukahár og enn aðrir þykkjandi efni sem borið er á hárin áður en maskarinn er settur á, til að gefa meiri fyllingu. Vatnsheldir maskarar geta verið til vandræða þar sem erfitt er að þrífa þá af og það eykur álag á viðkvæmu húðina undir augunum. því svæði skyldi hlífa svo ekki myndist ótímabærar línur. því er erfitt að mæla með þeim nema fyrir konur sem eru stöðugt í vandræðum með að maskarinn smitist undir augun.
Góð ráð:
• Skiptið alltaf um maskara á þriggja mánaða fresti til að koma í veg fyrir sýkingar. Maskarinn er oftast orðinn þurr eftir þann tíma.
• Gott er að byrja á neðri augnhárunum til að koma í veg fyrir að maskarinn klessist
upp í augnskuggann ef byrjað er á þeim efri.
• Notið eyrnapinna til að laga misfellur og klessur.
• Notið burstann af gamla maskaranum, þrífið hann og þá er kominn maskarabursti til að
greiða eftir að maskarinn er settur á.
• Beygið maskaraburstann aðeins, þannig nær maður betri tökum á burstanum.
Það sem má varast:
• Strokkið ekki maskarann með burstanum því þá þornar hann fyrr þar sem lofti er hleypt inn í rými.
• Lánið ekki öðrum maskarann eða deilið honum með öðrum. Það skapar hættu á sýkingu.
• Kaupið ekki of dýran maskara. Þá er hætta á að maður geymi of lengi að endurnýja
hann þar sem maður vill nýta hann til fullnustu.
• Notið aldrei augnhárabrettarann eftir að maskari hefur verið settur á augnhárin. Þá
eru þau orðin hörð og hætta á að þau brotni og hrynji niður.