Aldrei, aldrei í Hvalfjarðargöngin!

Hvalfjarðargöngin voru byggð á tveimur árum, frá 1996 til 1998 og styttu þar með leiðina heim til foreldra minna um tæpa klukkustund.

Það sem mér þótti þessi fjörður leiðinlegur hér í gamla daga, sérstaklega þegar við vorum á leiðinni í bæinn og vorum orðin þreytt á að sitja í bílnum og vildum bara komast á leiðarenda. Mér fannst fjörðurinn endalaus og ferðin virtist engan enda ætla að taka.

Svo byrjuðu þeir á þessum göngum sem áttu að fara UNDIR sjóinn. Ég man eftir því að ég hugsaði það oft, hvernig ég ætti nú að koma mér hjá því að fara í Hvalfjarðargöngin ef ég væri farþegi í bíl sem myndi ætla að nýta sér þessa leið. Ég ætlaði sko ALDREI að fara þessi göng, ALDREI! Ég ætti nú ekki annað eftir en að fara að keyra UNDIR sjóinn, þetta væri bara stórhættulegt og ég myndi sko ekki taka þátt í þessu. Fólk mætti alveg gera það mín vegna en ég ætlaði ekki að vera í þessum göngum þegar þau myndu hrynja, ó nei. (kannski búin að horfa á of margar hörmungarmyndir…)

Haldið þið að ég hafi haldið mig við þetta?

Nei!

Ég man eftir að hafa séð það í sjónvarpinu þegar göngin voru opnuð með mikilli viðhöfn og skælbrosandi ökumenn teknir tali þar sem þeir voru að koma upp úr göngunum. Mér fannst þetta fólk sýna mikið hugrekki.

Svo kom sá dagur að ég var farþegi í bíl sem stefndi beint á Hvalfjarðargöngin. ALMÁTTUGUR! Ég ákvað að halda kúlinu, krossaði fingur og hugsaði með mér að ef ég kæmist í gegnum göngin á lífi, myndi ég aldrei gera þetta aftur. Ferðin tók nokkrar mínútur og þá var þetta búið. Hvalfjörðurinn var að baki.

Síðan þá hef ég bara keyrt Hvalfjörðinn einu sinni og það var þegar ég var í skemmtiferð á þessu svæði og þurfti að fara í Hvalfjörðinn.

Þetta var ekkert hræðilegt eftir allt saman.

 

 

 

SHARE