Leikhópurinn Lotta frumsýnir Hróa hött, glænýtt íslenskt leikrit með söngvum í Elliðaárdalnum miðvikudaginn 28. maí, klukkan 18:00. Þetta er áttunda sumarið sem Leikhópurinn Lotta setur upp útisýningu en síðastliðin sumur hefur hópurinn tekist á við Gilitrutt, Stígvélaða köttinn, Mjallhvíti og dvergana sjö, Hans klaufa, Rauðhettu, Galdrakarlinn í Oz og Dýrin í Hálsaskógi. Að frumsýningu lokinni mun hópurinn í framhaldinu ferðast með sýninguna og heimsækja yfir 50 staði víðsvegar um landið.
Höfundur Hróa hattar er Anna Bergljót Thorarensen. Þetta er fjórða leikritið sem hún skrifar fyrir hópinn en hún hefur verið meðlimur í Leikhópnum Lottu frá stofnun hans árið 2006. Ný tónlist hefur einnig verið samin fyrir verkið. Textarnir eru allir eftir Sævar Sigurgeirsson en lögin sömdu meðlimir leikhópsins sjálfir.
Söguna um Hróa hött þekkja flestir en í útgáfu Leikhópsins Lottu fléttast ævintýrið um Þyrnirós inn í atburðarrásina og úr verður einstaklega fjörugt og skemmtilegt verk. Alls eru sex leikarar í sýningunni sem skipta á milli sín 12 hlutverkum. Þá er flutt lifandi tónlist, söngur og dans og því nóg um að vera. Þessu er síðan öllu haldið saman af leikstjóranum og er hann enginn annar en Vignir Rafn Valþórsson en hann vakti mikla athygli í vetur fyrir uppsetningar sínar í Borgarleikhúsinu, Refinn og Bláskjá.
Miðaverð á sýninguna er 1.900 krónur og ekki þarf að panta miða fyrirfram heldur er alveg nóg að mæta bara á staðinn. Gott er að klæða sig eftir veðri þar sem sýnt er utandyra. Þá mælir Lotta með því að foreldrar taki myndavélina með þar sem áhorfendur fá að hitta persónurnar úr leikritinu eftir sýningu. Öllum þykir jú gaman að eiga mynd af sér með uppáhaldsvini sínum úr Ævintýraskóginum.
Nánari upplýsingar um sýninguna má finna á hér.
Myndir má síðan nálgast hér:
https://www.dropbox.com/sh/noc11mgijjekgh1/AADDTTB_yC5F6vxWbMmSfPy3a
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.