Meðganga og hægðatregða – Hvað er til ráða?

Margar barnshafandi konur eiga í vandræðum með hægðalosun á meðgöngunni. Hægðatregða veldur oft miklum óþægindum, því að eðlileg þarmastarfsemi er grundvallarþáttur í almennri vellíðan. Á meðgöngunni er enn mikilvægara en endranær að vera meðvituð um mataræðið því meltingin verður fyrir áhrifum af hormónastarfsemi.

Hvað gerist í þörmunum?

Þegar þú verður barnshafandi myndar þú meira af kvenhormónum en þú átt vanda til. Þessi hormón hafa það hlutverk að tryggja velferð fóstursins og búa líkamann undir fæðingu.Til viðbótar hafa þau áhrif á ósjálfráða taugakerfið þannig að það hægist á hreyfingu þarmanna og þar með þarmastarfseminni.Til að þarmarnir geti starfað eðlilega þurfa þeir að hafa úr nægum trefjum og vökva að moða. Þetta tvennt í sameiningu sér um að halda þörmunum gangandi. Á meðgöngunni þarf því að sjá til þess að þarmarnir fái enn meiri örvun en venjulega.

Hver eru einkenni hægðatregðu?

  • Ef meira en fjórir dagar líða milli hægðalosunar og erfitt eða sárt er að koma þeim frá sér.
  • Harðar hægðir sem erfitt er að losa.
  • Þér er mál þó að þú hafir verið að hafa hægðir fyrir skömmu.
  • Maginn er uppþembdur.
  • Ógleði, vanlíðan og þreyta.
  • Hægðirnar geta verið svo harðar að það blæðir úr endaþarminum. Þetta geta verið einkenni hægðatregðu. Reyndar gætu þau einnig bent til alvarlegra sjúkdóma, og því er rétt að leita til læknis ef þú finnur fyrir ofangreindum einkennum.

Hvaða ráð eru við hægðatregðu?

Þrjú atriði eru mikilvæg fyrir góða meltingu:

  1. borða trefjaríka fæðu
  2. drekka nægan vökva
  3. hreyfa sig

Úr hvaða mat fást trefjar?

  • Kornmeti, ávöxtum og grænmeti sem eru trefjarík. Skynsamlegt er að neyta einhverra eftirtalinna fæðutegunda daglega.
  • ávöxtum
  • grænmeti
  • grófu brauði
  • múslí
  • All-Bran
  • sveskjum
  • sveskjusafa

Ástæða þess að trefjarnar eru svona mikilvægar fyrir meltinguna er að þær erta þarmaveggina og halda þar með meltingarfærunum gangandi. Trefjarnar drekka einnig í sig vökva og halda með því hægðunum mátulega mjúkum.

Hve mikið þarf að drekka og hvað?

Til að þarmastarfsemin haldist í lagi er nauðsynlegt að hægðirnar haldist mjúkar. Trefjarnar úr fæðunni sjúga til sín vökva í þörmunum. Ef ekki er nægur vökvi í líkamanum, berst ekki næg væta til þarmanna og hægðirnar verða harðar og tregar.

Til að fá nægan vökva fyrir meltinguna er nauðsynlegt að drekka a.m.k. 2 – 3 lítra af vökva á dag.

Best er að vökvinn sé að stærstum hluta vatn. Þú mátt drekka eins mikið af því og þú vilt. Til viðbótar er óhætt að drekka jurtate og ávaxtasafa og jafnvel örlítið kaffi. Gosdrykkir eru fremur stemmandi og geta aukið á hægðatregðuna.

Hvers vegna bætir hreyfing meltinguna?

Öll hreyfing örvar þarmastarfsemina.

Þegar þú hreyfir þig má segja að þú „nuddir“ þarmana og hvetjir þá til dáða og afleiðingin eru betri hægðir. Sund eða göngutúrar í 20 – 30 mínútur, þrisvar sinnum í viku, bæta meltinguna. Líkamsrækt er líka heilnæm að öðru leyti, stuðlar að almennri vellíðan og er góður líkamlegur undirbúningur fyrir fæðinguna.

Heimildir: Doktor.is 

SHARE