Tískurisinn Vogue ríður nú á vaðið með enn eitt trendið; nú verður hægt að kaupa flíkurnar sem birtast á Instagram reikning Vogue með því einu að smella á LIKE hnappinn.
Tæknin sjálf byggir á LiketoKnow:It sem merkir einfaldlega á mannamáli að í hvert sinn sem fylgjendur Vogue á Instagram smella á valda mynd, fá þeir hinir sömu tölvupóst sem vísa á tengla sem leiðbeina eiga kaupendum sem vilja eignast vöruna – eða jafnvel aðrar keimlíkar vörur sem gætu allt eins fallið í kramið.
„Væri ekki æðislegt ef þú gætir keypt þér kjólinn með einum smelli? Núna geturðu það!” segir á vefsíðu Vogue. Ákveðin prósenta af söluverði þeirra flíka sem keyptar eru gegnum Instagram reikning Vogue renna svo til tímaritisins.
En þetta er ekki eina leiðin til að eignast flík sem birtist á Instagram, því Soldsie og Chirpify bjóða notendum einnig upp á bein kaup gegnum samskiptamiðla.
Soldsie sem hægt er að notast við bæði gegnum Facebook og Twitter, gerir kaupendum kleift að versla flíkur beint gegnum kommentakerfin sjálf. Þannig virkar þetta:
Ef verslun eða fyrirtæki auglýsir vöru sína með þeim upplýsingum að varan sé til sölu, getur notandi einfaldlega skrifað inn athugasemdina Sold#small (medium-large) til að versla sína stærð, að því gefnu að kreditkort hafi þegar verið tengt við reikninginn.
Chirpify notast hins vegar við #merkið. Ef fyrirtæki birtir mynd og skrifar #gottahaveit til að kaupa þessa vöru fyrir (ákveðna upphæð) svarar notandi einfaldlega með #merkinu og Chirpify í framhaldinu svarar með tengli sem vísar notandanum á greiðslusíðuna.
Einnig er hægt að versla rafrænt gegnum Amazon fyrir þá notendur sem eru með Twitter, en í þeim tilfellum er varan færð í körfu notenda og gjaldfærð síðar.
Í stuttu máli sagt; það er orðið hættulega einfalt að líka við og festa kaup á flíkum.
Smelltu HÉR til að skoða Instagram reikning Vouge (ef þú þorir!)
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.