„Ég er ekki útilegumanneskja“

Já þetta er byrjað aftur, útilegutímabilið. Annar hver maður er að birta myndir af sér með fjölskyldunni, allir glaðir og kátir á leið í útileguna. Það virðist vera að það séu til tveir hópar af fólki, fólk sem ELSKAR útilegur og drífur sig út í sveit allar helgar yfir sumarið, „eltir veðrið“ og finnst nú ekki mikið mál að sofa í tjaldi eða tjaldvagni á íslenskri sumarnóttu.

Ég er með játningu. Ég er ekki útilegumanneskja! Ég hef reynt þetta og gerði það oft og mörgum sinnum áður en ég sætti mig við að þetta er ekki fyrir mig. Ég er svo heppin hinsvegar að barnsfaðir minn er alveg til í svona svo dóttir mín nýtur þessara „forréttinda“ annarsstaðar. Ég set gæsalappir utan um forréttindi því ég get ekki séð að allt þetta jákvæða og skemmtilega geti verið borið að jöfnu við allt þetta umstang og vesen sem fylgir útilegunni. Þið verðið bara að afsaka.

Ég er engin prinsessa en mér finnst voðalega gott að komast í sturtu sem ég þarf ekki að deila með hundruðum annarra og rennandi vatn þegar mér hentar. Rafmagn er líka eitthvað sem mér finnst voða gott að hafa. Ekki misskilja mig, ég er ekki að hugsa um fyrir tölvuna og símann minn, ég er alveg til í að sleppa því, en bara til að kveikja á lampa eða elda eða svoleiðis.

Alltaf þegar ég hef farið í útilegu hef ég vaknað, þvöl og mygluð og einhvernveginn aldrei jafnað mig á myglunni þó að líði á daginn. Mínar minningar af útilegum hafa svolítið einkennst af þessu: Mér er kalt, fötin mín köld og þvöl, maður þarf endalaust að vera að pakka upp eða pakka niður og þessi skelfilega uppgötvun, þegar ég var lögst í svefnpokann og líkamshitinn er svona við það að verða eðlilegur og þá þarf ég að pissa. Maður þarf að klæða sig og koma sér út og nota útikamarinn eða pissa úti, fer eftir því hvar maður er. Og já, ef maður þarf að pissa eða annað úti, hvert á að setja klósettpappírinn? Ég er ekki klár á þessu, mér finnst bæði frekar ófýsilegir kostir, að henda klósettpappírnum út í náttúruna og taka hann með í poka. Ég er nefnilega náttúrubarn, þrátt fyrir allt. Ég elska að vera úti í náttúrunni og fara í gönguferðir og fjallgöngur og svona…. en svo vil ég bara fara heim í hlýjuna, skella mér í bað og náttfötin. Ég er alveg meira en til í að fara í sumarbústað, er það ekki hálfgerð útilega? 🙂

En ég vil samt segja, svona að lokum, að ég dáist að fólki sem fer mikið í útilegur og svoleiðis, jafnvel um hverja helgi yfir sumartímann. Kannski á þetta eftir að breytast hjá mér, hvur veit? En þangað til verð ég bara í dagsferðunum, sumarbústöðunum og í bændagistingu.

SHARE