Hann gerði það sem þurfti til að fá starfið

Frjór hugur, geta til að hugsa út fyrir kassann og skapandi framkvæmdir eru lykileiginleikar þegar hönnunargreinar eru annars vegar.

Brennan Gleason, kanadískur hönnunarnemi virðist ekki bara búa yfir öllu ofangreindu, heldur vissi hann einnig skömmu fyrir útskrift nú í vor að samkeppni um störf á markaðinum yrði það gífurleg að hann yrði með einhverjum hætti að skara framúr öðrum umsækjendum, ætti hann að eygja einhverja von um trygga stöðu að loknum skóla.

Svo langt gekk Brennan í atvinnuleitinni að hann setti upp bruggaðstöðu heima hjá s ér, lagaði heimagerðan bjór og prentaði ferilskránna á sérhannaða bjóröskju, sem innihélt bjórinn góða. Á miðana sjálfa prentaði hann hluta af ferilskránni og útdrátt utan á bjóröskjuna sjálfa.

Svona leit umsókn Brennan út; sniðugt uppátæki, ekki satt?

 

o-RESUME-570 (1) o-RESUME-570

Það eru allir farnir að kasta netunum út skömmu fyrir útskrift. Samnemendur mínir voru allir farnir að senda inn umsóknir til fyrirtækja og ég vissi að ég yrði með einhverjum hætti að skera mig úr fjöldanum – en ég vildi hanna og senda umsókn sem gæfi stjórnendum fyrirtækja örlitla yfirsýn yfir það hver ég í raun og veru er. Mér finnst gaman að brugga bjór og ég er skapandi í hugsun. Ég sendi út þrjár umsóknir og bara á þá staði sem mig langaði virkilega að vinna á og það endaði með því að ég fékk samstundis nokkur tilboð sem ég gat valið úr.

En ferlið var ekki einfalt í eðli sínu og tók sinn tíma, því heilar sjö vikur tók að brugga bjórinn og mikil vinna lá að baki hönnun bjóröskjunnar sjálfrar, sem innihélt ferilskrá Brennan. Hann þurfti að sérhanna merkimiða fyrir hverja flösku fyrir sig – með rafrænum kóðamerkjum og útdrætti af ferilskrá hans – og hannaði álíka útdrátt fyrir sjálfan kassann. Útkoman varð að lokum sannkölluð listasmíði og skyldi engan undra að Brennan skuli hafa fengið nokkur tilboð nær samstundis.

Eins og áður sagði hreppti Brennan starf strax að lokinni útskrift og það sem meira er, hann er í dag yfirmaður á sínu sviði og er hönnunarstjóri stafrænu markaðsdeildar kanadíska fyrirtækisins Techtone. Þó bjórkippan hafi komið sér í góðar þarfir og fleytt honum langt í atvinnuleitinni viðurkennir hann einnig að heimabruggaður bjór falli eflaust í misjafnan farveg hjá stjórnendum innan ólíkra atvinnugreina og leggur fólki almennt frá þeirri hugmynd að senda starfsmannastjórum áfenga drykki ef ætlunin er að sækja um starf.

… ég geri ráð fyrir því að umsóknin mín hafi skarað framúr því ég lagði mig fram við hönnunina og var öðruvísi í nálgun en aðrir umsækjendur. Við sem störfum við hönnun reynum í sífellu að sýna fram á getu okkar til að vera skapandi. Að geta verið grípandi í nálgun við fyrstu sýn er það sem stjórnendur taka strax eftir. 

Og það leikur enginn vafi á því að Brennan hefur rétt fyrir sér. Þá er bara að dusta rykið af gráu heilasellunum, ef atvinnuleitin er að plaga þig og hugleiða með hvaða móti þú getur skarað framúr öðrum umsækjendum á þínu sviði; þó ekki endilega með áfengiskaupum heldur á þinn einstaka hátt. 

Til að skoða umsókn Brennan betur, smelltu þá HÉR

SHARE