Hunang hefur verið notað í aldaraðir í þeim tilgangi að mýkja bæði húð og hár. Á dögum forn Egypta er sagt að Kleópatra hafi baðað sig upp úr hunangi og mjólk til að fá mýkri og sléttari húð. Önnur staðreynd er sú að margir þola alls ekki þau kemísku efni sem notuð eru í mörgum snyrtivörum. Þess vegna er vel þess virði fyrir viðkvæmu húðtýpurnar að láta slag standa og prófa hunangið.
Upprunalega kemur uppskriftin frá vefsíðunni ahoseinthehills.com en ég breytti henni lítillega. Ég set kókosolíu í staðinn fyrir jojobaolíu einfaldlega vegna þess að ég hef tröllatrú á kókosolíu og ég sleppi sápunni.
En af hverju hunang?
Hunang er einstaklega rakagefandi og virkar róandi á húðina og hjálpar þannig til við að koma á jafnvægi, t.d. ef um útbrot eða ofurviðkvæmni er að ræða. Auk þess sem það er það stútfullt af andoxunarefnum, vítamínum, steinefnum og ensímum.
Þrátt fyrir að undirstaðan í hreinsinum sé hunang er gott að nota bæði Tea tree og sítrónu ilmkjarnaolíur með vegna sótthreinsandi eiginleika þeirra. Tea tree olían er bakteríudrepandi og sítrónuolían reyndar líka en hún gefur húðinni aukinn frískleika og gerir það að verkum að hreinsirinn helst lengur ferskur.
Best er að koma hreinsinum fyrir í glerflösku með pumpu til að forðast að það verði potað í hann með skítugum höndum. Hægt er að kaupa svoleiðis á amazon.com
Gangi ykkur vel!
Innihald
1 bolli soðið vatn sem hefur síðan verið kælt
5 msk lífræn kókosolía
2 msk lífrænt hrátt hunang (mikilvægt að nota lífrænt hunang)
15 dropar teatree ilmkjarnaolía
15 dropar sítrónu ilmkjarnaolía
Aðferð
Mikilvægt er að öll áhöld sem notuð eru séu sótthreinsuð, gott ráð er að sjóða þau í vatni fyrir notkun.
Hellið vatni í ílátið sem þið ætlið að nota ásamt kókosolíunni, hunanginu og ilmkjarnaolíunum.
Blandið vel saman. Berið á kvölds og morgna, skolið af með vatni. Munið að hrista alltaf fyrir notkun.
Þóra er keramikhönnuður og starfar sem slíkur á vinnustofu sinni í Hafnarfirði ásamt pistlaskrifum og kennslu. Þóra reynir að tileinka sér umhverfisvæna mannasiði á sem flestum sviðum og notar t.d. sem náttúrulegust hráefni í hönnun sína. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hér heima og ytra ásamt því að hafa komið að rekstri tengdum heilsu og hönnun.