En þetta var á annarri öld. Á okkar öld hefur vandi foreldranna snúist við og nú verðum við að hafa okkur öll við til að koma krökkunum út og erum ekki einu sinni heima til að vita hvað þau eru að gera. Það þýðir ekkert að hringja heim úr vinnunni eða í farsíma barnsins og segja: „Siggi minn líttu nú út um gluggann og sjáðu góða veðrið. Drífðu þig nú út að leika þér“. Svarið sem við fáum verður oft á tíðum: „Æ, ég nenni því ekki, það er ekkert að gera úti og svo er ég alveg að klára borðið í tölvuleiknum“. Eða: „Ég er að tala við Nonna, Gunnu og Dísu á Facebook, fer kannski út á eftir“.
Nútímaforeldrar þurfa mikla hugmyndaauðgi og púslhæfileika til að koma saman dagskrá sem hefur ofan af fyrir börnunum eftir að skóla lýkur og áður en fjölskyldan fer í sumarfrí, því foreldrar eiga mun styttra frí en börnin. Sem betur fer detta bæklingar inn á heimilin á vorin sem kynna fyrir okkur alls kyns tómstundastarf og námskeið sem hugsuð eru til að hjálpa okkur að brúa þetta bil.
En námskeiðin duga ekki til og mörg eldri barnanna vilja ekki fara á nein námskeið heldur hafa ofan af fyrir sér sjálf. Og þau eiga svo sem ekki í vandræðum með það. Tölvur og sjónvarp eru aðgengilegir afþreyingarmöguleikar og í stað þess að borða morgunmat og drífa sig út í góða veðrið er auðvelt að rölta inn í stofu og leggjast fyrir framan sjónvarpið eða kveikja á tölvunni og fara í leiki, spjalla á Facebook, skrifa blogg, eða vafra á Netinu.
Þetta þýðir þó ekki að krakkahóparnir séu alveg horfnir. Langt frá því. Þau hafa bara skipt um vettvang og samskiptin eru orðin stafræn. Þau hittast á Faceboo, spjallrásunum, og fylgjast með bloggsíðum hvers annars. Þarna fara samskiptin fram. Þau spjalla um áhugamálin, hvort þau eigi að hittast, hvað þau eigi að fara að gera og senda hvert öðru myndir og slóðir á skemmtilegar vefsíður. Svo hittast þau tvö og þrjú saman heima hjá einhverjum og eru saman við tölvuna, í leikjum eða á Netinu. Og auðvitað fara þau stundum út að leika.
Tölvur og netsamskipti gegna sífellt stærra hlutverki í lífi barnanna okkar og þetta á ekki síst við á sumrin þegar skóla lýkur og þau hittast ekki lengur þar eða í reglulegu tómstundastarfi.
Margir foreldrar hafa áhyggjur af þessu, sérstaklega þegar um er að ræða börn sem eiga fáa vini eða jafnvel enga og leita sér afþreyingar og samskipta á Netinu.
En Netið hefur skapað þeim börnum, eins og öðrum, alls kyns nýja möguleika til þess að eiga samskipti, leita sér afþreyingar og miðla því sem þau eru sjálf að hugsa og gera.
Það sem við foreldrar þurfum að gera er að fylgjast með netnotkuninni og það gerum við best með því að vera í góðum samskiptum við börnin okkar og ræða við þau um hvernig þau nota Netið og hvaða reglum þarf að fylgja til þess að lenda hvorki sjálf í vandræðum né valda öðrum vanda eða sárindum.
Minnum þau á að Netið er stærsti fjölmiðill í heimi. Það sem þar er sett inn er opið fyrir alla. Og – að sjálfsögðu gilda sömu reglur um orðbragð og framkomu þar eins og annars staðar.
Kannanir sýna að oft vita foreldrar mun minna um netnotkun barna sinna en þau halda. Við þurfum að kenna þeim að fóta sig í netheimum, ekki síður en í hinum áþreifanlega heimi. Foreldrar og börn geta sest saman við tölvuna og skoðað vefsíðu SAFT, en það er vakningarverkefni hjá Heimili og skóla – landssamtökum foreldra um jákvæða og örugga notkun barna og unglinga á Netinu og tengdum miðlum. Á vefsíðu verkefnisins er mikið af efni sem tengist öruggri netnotkun, tenglar á góðar netsíður og góðar ráðleggingar fyrir foreldra. Þar er einnig að finna skemmtilega getraun og kennsluefni fyrir börnin, sem upplagt er að skoða saman.
Tölum við börnin okkar um að:
- Fara varlega þegar þau setja upplýsingar um sig á Netið
- Hugsa sig vel um áður en þau setja myndir af sér eða öðrum á Netið. Það sem einu sinni er komið þar inn er ekki auðvelt að fjarlægja þaðan aftur. Einhver annar getur verið búinn að vista myndina hjá sér í millitíðinni
- Að setja ekki myndir af öðrum á Netið í leyfisleysi.
- Að muna að orðin hafa sömu merkingu þegar þau eru skrifuð á Netið eða Msn eins og þegar þau eru sögð við aðra.
- Að muna að tölvan og Netið eru frábær fyrirbæri en það er stutta íslenska sumarið líka. Njótum þess á meðan það varir.
Höfundur starfaði sem verkefnisstjóri SAFT hjá Heimili og skóla. Greinin birtist fyrst í tímaritinu Uppeldi.