Útflattur chili kjúlli með hvítlauk og sítrónu

 

 

 

 

Þessi uppskrift er frá Eldhúsperlum og meiriháttar!

min_IMG_5373

Ég fæ seint leið á því að elda heilan kjúkling og hugsa að ég hafi prófað hundrað mismunandi útgáfur í gegnum tíðina. Hér á bæ er heill kjúklingur kallaður ”hæna” af þeim fimm ára og það er enginn vafi á því að þeim stutta þykir hænan margfalt betri en til dæmis kjúklingabringur. Hann dæsir þegar undirrituð býður upp á svoleiðis ómögulegheit. Ég er alveg á því að kjúklingabringur séu fyrir nútímabarnið það sem soðin ýsa var fyrir mig þegar ég var lítil. Oft á borðum og alveg ágætis matur en aldrei við nein sérstök húrrahróp eða fagnaðarlæti. Ég get svosum alveg tekið undir með stráknum og veit fátt betra, eða einfaldara en að elda heilan kjúkling. Þá fá líka allir eitthvað fyrir sinn snúð. Svo verður þessi fíni afgangur (allavega hjá okkur) sem má nota í hádegismat daginn eftir, inn í tortillakökur, út í kjúklingasalat og svo mætti lengi telja. Nýjasta hænu æðið á heimilinu er þessi skemmtilega flati chilli kjúklingur sem vekur ávalt lukku. Hryggbeinið klippi ég úr kjúllanum og baka hann svo í ofni með brjóstið upp (hér eru góðar leiðbeiningar hvernig maður klippir hrygginn úr kjúllanum). Bæði eldast kjúklingurinn fyrr með þessari aðferð og svo þykir mér skemmtilegt að bera hann fram svona. Ég hvet ykkir til að prófa þetta mikla gúmmelaði og lofa að Sambal chillimaukið gerir kjúklinginn alls ekki svo sterkan heldur bara alveg einstaklega ljúffengan.

min_IMG_5380Útflattur chilli kjúlli með sítrónum:

  • 1 vænn heill kjúklingur
  • 2-3 msk chillimauk eins og Sambal Oelek (fæst t.d í Bónus)
  • 1 sítróna
  • 2-3 hvítlauksrif
  • Ólífuolía, salt og pipar

Aðferð: Hitið ofn í 200 gráður eða 180 gráður með blæstri. Skolið kjúklinginn að utan og innan og þerrið með eldhúspappír. Snúið kjúllanum þannig að bringan snúi niður og náið góðu taki á honum. Klippið hryggbeinið/hryggsúluna úr kjúklingnum með góðum eldhússkærum (sjá hér). Leggið kjúklinginn þannig að bringan snúi upp og þrýstið með báðum höndum á bringubeinið þannig að það gefi undan og kjúklingurinn fletjist vel út, skerið nokkrar rákir í bringuna og lærin svo kryddið komist betur inn í kjötið. Penslið kjúklinginn með chillimaukinu báðu megin og kryddið með salti og pipar.

min_IMG_5366

Skerið sítrónuna í sneiðar. Leggið helminginn af sneiðunum í botninn á eldföstu móti  ásamt hvítlauknum og leggið kjúklinginn þar ofan á. Setjið restina af sítrónunni yfir kjúllann og dreypið smá ólífuolínu yfir allt saman og setjið u.þ.b 1 dl af vatni í botninn á fatinu.

min_IMG_5368

Bakið í 40 mínútur og takið þá út og athugið hvort kjúklingurinn er tilbúinn með kjöthitamæli eða með því að skera í þykkasta hluta bringunnar. Ef hann er ekki alveg tilbúinn stingið honum þá inn aftur í 5 mínútur og athugið þá aftur. Það borgar sig að athuga frekar oftar en ekki til þess að ofelda ekki kjúklinginn. Þegar kjúklingurinn er tilbúinn tek ég hann út úr ofninum og leyfi honum að standa á borði í a.m.k 10-15 mínútur áður en ég sker hann. Þannig verður kjötið enn safaríkara. Ég ber þetta fram með kúskús og salati og dásamlega sítrónu, chilli, hvítlauks, kjúklingasoðinu sem kemur í botninn á fatinu.min_IMG_5375

SHARE