Sagan af Gammy litla, drengnum sem var hafnað af líffræðilegum foreldrum sínum meðan í móðurkviði og skilinn var eftir í Thailandi hjá staðgöngumóður sem fæddi barnið, hefur farið hátt að undanförnu og fréttaflutningur verið nokkuð tvíbentur, en nokkrir af stærri fjölmiðlar heims hafa tekið málið upp. Sett var af stað alþjóðleg söfnun í nafni litla drengsins til að standa straum af þungum læknisfræðilegum kostnaði og hefur söfnunin skilað háum fjármunum sem lagðir verða í sjóð handa drengnum.
HÚN fjallaði um mál Gammy fyrir stuttu (lesa HÉR) og vakti fréttin hörð viðbrögð lesenda. Í kjölfarið hefur umræða hefur spunnist um réttmæti staðgöngumæðrunar, en engin lög er að finna í Thailandi sem ná yfir staðgöngumæðrun. Réttarstaða staðgöngumæðra og barna sem fæðast á þann máta er því afar slök, fari eitthvað úrskeiðis eins og í tilfelli Gammy.
Stuðningsfélag staðgöngumæðrunar á Íslandi hefur nú sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins, þar sem meðal annars kemur fram að sagan af litla drengnum staðfesti mikilvægi þess að skýr lagarammi og reglugerð ríki um staðgöngumæðrun undir faglegri handleiðslu og eftirliti er tryggi hagsmuni barns, staðgöngumóður og verðandi foreldra.
Nú stendur yfir undirbúningur lagafrumvarps heilbrigðisráðherra um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni á Íslandi sem leggur frumáherslu á að tryggja hagsmuni barns, staðgöngumóður og verðandi foreldra og er yfirlýsing Stuðingsfélags staðgöngumæðrunar fróðleg fyrir þá parta, en yfirlýsinguna í heild sinni má lesa hér:
Sagan af Gammy, litla drengnum og tvíburasystur hans sem ung tælensk staðgöngumóðir fæddi í Tælandi á síðasta ári, hefur farið um allan heim og vakið samhug alls staðar. Sagan á bak við Gammy virðist á reiki og að hluta óljós, allt eftir því hver fjallar um hana en staðreyndin er sú að hjón frá Ástralíu fóru til Tælands til að fá aðstoð staðgöngumóður til að eignast barn og greiddu henni fyrir viðvikið.
Komið hefur fram að tælenska umboðsskrifstofan sem hafði milligöngu í málinu sé ekki lengur starfandi en í Tælandi eru engin lög eða reglur um staðgöngumæðrun og þau mál því í miklum ólestri þar. Það sem sagan af Gammy staðfestir er mikilvægi þess að setja lagaramma og reglugerð um staðgöngumæðrun undir handleiðslu og eftirliti fagaðila eins og félagsráðgjafa og frjósemissérfræðinga tryggir hagsmuni barns, staðgöngumóður og verðandi foreldra frá upphafi ferlisins. Til dæmis er mikilvægt að para staðgöngumóður og verðandi foreldra á þann hátt að þau séu sammála í afstöðu sinni og skoðunum á þeim málum sem geta komið upp á meðgöngu.
Eftirfylgni er ekki síður mikilvæg og á að vera í höndum sérfræðinga og fagaðila. Það er afar jákvætt að þrátt fyrir allan þann fjölda staðgöngufæðinga sem er staðreynd í heiminum í dag skuli einungis örfá alvarleg vandamálatilvik hafa komið upp. Talið er að a.m.k. fjögur börn séu fædd af staðgöngumæðrum á hverjum degi í Bandaríkjunum einum og hefur staðgöngumæðrun verið leyfð með lögum í áratugi í sumum löndum með góðum árangri, bæði í velgjörð og hagnaðarskyni. Vönduð vinnubrögð með aðkomu og eftirliti sérfræðinga og fagaðila er mjög mikilvæg í því samhengi.
Það er mikilvægt að öll ríki setji lög og reglugerðir um staðgöngumæðrun í sínu landi til að vera í stakk búin að takast á við þá þróun sem átt hefur sér stað í þessum málaflokki á undanförnum áratugum. Í ljósi þess fögnum við þeirri vönduðu vinnu sem nú á sér stað við undirbúning lagafrumvarps heilbrigðisráðherra um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni á Íslandi sem mun hafa hagsmuni barns, staðgöngumóður og verðandi foreldra að leiðarljósi.
Stuðningsfélag staðgöngumæðrunar á Íslandi
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.