Íslenskur fatahönnuður Anita Hirlekar hlaut verðlaun fyrir fatalínu sína sem var hluti af meistaranámi hennar frá Central St. Martins í London og er afraksturinn nú til sýnis í heimabæ hennar á Akureyri.
Það má með sanni segja að Anita Hirlekar hafi komið inn á sjónarsviðið með stæl eftir útskrift úr fatahönnun og textíl frá hinum virta skóla Central St. Martins í London. Hún hlaut hin svokölluðu “Fashion Special Price” verðlaun í fatahönnunarkeppni fyrir nýútskrifaða hönnuði þann 13. júlí sl. Ekki nóg með það heldur komst hún áfram í úrslit í annarri keppni þar ytra sem nefnist “International Talent Support.” Að vonum er þetta mjög mikill heiður og viðurkenning fyrir Anitu sem á eflaust eftir að opna henni fjölmörg tækifæri á sviði fatahönnunar í framtíðinni.
Fatatalína Anítu, sem nú er til sýnis í Gallerí Hvítspóa á Akureyri, einkennist af listrænum glamúr með áherslu á óvenjulegar litasamsetningar, sterkan persónuleika og hreinar kvenlegar línur.
Fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér nánar föt Anítu er bent á heimasíðu hennar HÉR.
Frétt af heimasíðu Handverks og hönnunar
Þóra er keramikhönnuður og starfar sem slíkur á vinnustofu sinni í Hafnarfirði ásamt pistlaskrifum og kennslu. Þóra reynir að tileinka sér umhverfisvæna mannasiði á sem flestum sviðum og notar t.d. sem náttúrulegust hráefni í hönnun sína. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hér heima og ytra ásamt því að hafa komið að rekstri tengdum heilsu og hönnun.