Ógeðslegt: Eltihrellir húðflúraði nafn 13 ára stúlku á allan líkamann og skaut föður hennar

23 ára bandarískur karlmaður af latneskum uppruna hefur verið dæmdur til 20 ára fangelsisvistar fyrir að leggja 13 ára gamla stúlku í grimmilegt einelti, en maðurinn sem ber heitið Gabriel Ramirez húðflúraði nafn stúlkunnar yfir allan líkama sinn og skaut föður hennar, þó ekki til ólífis.

Atburðarásin, sem er næsta líkust atriði úr hryllingsmynd, átti sér stað í Dallas og leikur enginn vafi á því að einn svæsnasti eltihrellir í sögu sýslunnar sé nú loks kominn á bak við lás og slá, en Gabriel hlaut dóminn eftir að hafa gengist við öllum ákæruliðum sem fólu meðal annars í sér árás með banvænu vopni og þrákelnislegt einelti í garð stúlkunnar sem hefur nýhafið göngu í gagnfræðaskóla.

Við réttarhöldin sem reyndust litlu stúlkunni þungbær, kom meðal annars fram að Ramirez hringdi látlaust í stúlkuna, sendi henni blómvönd á afmælisdegi hennar og birtist í tíma og ótíma utan við heimili hennar með þeim einföldu afleiðingum að faðir stúlkunnar stuggaði honum á brott.

Það var svo í byrjun júnímánaðar 2013 að Ramirez birtist utan við heimili stúlkunnar og barði að dyrum sem venjulega, en þegar faðir hennar svaraði og bað manninn að snauta burt, brást Ramirez samstundis við og skaut föður stúlkunnar þrisvar sinnum með hlaðinni skammbyssu en kúlurnar höfnuðu í brjóstholi, lifur og maga.

Til allrar hamingju lifði faðir hinnar ógæfusömu og örvæntingarfullu táningsstúlku árásina af en hann þurfti á tveimur stórum skurðaðgerðum að halda í kjölfar árásarinnar og þurfti að greiða svimandi háa fjárhæð í læknis- og endurhæfingarkostnað. Hann hefur aldrei jafnað sig að fullu eftir skotárásina.

Ramirez skartar hvorki meira né minna en tólf húðflúrum af nafni stúlkunnar, en hann hefur einnig látið húðflúra á sig heimilisfang hennar og fæðingardag.

Við réttarhöldin hélt Ramirez því fram að hann sæi eftir því að hafa látið húðflúra sig og bar því við að hann hefði verið undir miklum áhrifum eiturlyfja; kókaíns, heróíns, marijuana, Xanax, amfetamíni, áfengi og PCP þann sana dag og hann skaut föður stúlkunnar með fyrrgreindum afleiðingum.

Þrátt fyrir að Ramirez hafi nú hafið afplánun sína og hafi haldið því fram fyrir dómara að hann iðraðist gjörða sinna hefur hann ekki látið af þráhyggju sinni þrátt fyrir að sitja bak við lás og slá í dag. Þannig heldur hann áfram að senda ekki einungis stúlkunni, heldur einnig föður og móður hennar látlaus skilaboð úr fangelsinu og tilgangurinn er alltaf sá hinn sami; að lýsa yfir óslökkvandi ást á litlu stúlkunni.

Hér má sjá nær ótrúlega og hrollvekjandi umfjöllun NBC um eltihrellinn Ramirez:

http://youtu.be/-vWID3xjGYs

SHARE