„Þetta eru flottir strákar, þeir hlupu 10 kílómetra í fyrra og ætla að fara 21 kílómeter í ár en þeir ætla að spretta úr spori fyrir sumarbúðir fatlaðra og lamaðra barna í Reykjadal. Dagur Steinn verður í hjólastólnum en Toggi vinur hans ýtir,” svarar Ómar Örn Jónsson, faðir Dags aðspurður um glæsta áheitasöfnun þeirra Dags og Togga fyrir Reykjavíkurmaraþonið sem verður haldið nú á laugardag.
Til mikils að vinna: Dagur leggur undir áritaða landsliðspeysu af EM í Danmörku
Sjáf áheitasöfnunin er með skemmtilega óvenjulegu móti og hafa tölur farið fram úr björtustu vonum, en fari söfnun fram úr 500.000 króna markinu hefur Dagur Steinn heitið því að leggja undir áritaða landsliðspeysu sem honum hlotnaðist að gjöf hjá íslenska landsliðinu í handbolta á EM í Danmörku. Það eina sem til þarf er að láta netfang fylgja með í texta þegar heitið er á strákana og verður einn heppinn stuðningsmaður dreginn út þegar markmiðinu er náð og hreppir hinn sami treyjuna.
Roadhouse lagði áheitasöfnun Dags og Togga lið og keypti treyju Arons Jôhanns á 75.000 krónur
Roadhouse keypti íþróttatreyju Arons Jóhanns á 75.000 kr til styrktar Reykjadals
Gaman er frá því að segja að auk þess að bjóða upp landsliðstreyjunni, þá seldi Dagur Steinn uppáhalds íþróttatreyjuna sína til styrktar Reykjadals fyrir skemmstu, en það var Roadhouse sem keypti íþróttatreyjuna. Það var enginn annar en Aron Jóhanns, íþróttamaður sem hafði áritað treyjuna sem áður var í eigu hans sjálfs. Treyjan hangir nú uppi á vegg Roadhouse í viðhafnarramma þar sem gestir og gangandi geta borið hana augum, en andvirði treyjunnar, 75.000 íslenskar krónur runnu til Reykjadaĺs.
Þeir Dagur og Toggi hafa margt brallað, hér eru þeir við veiðar í Elliðaám í boði borgarstjóra
Tóku forskot á maraþonið á Þjóðhátíð og gæddu sér á hamborgara
“Þeir hafa verið vinir í mörg ár, strákarnir og eru alltaf að bralla eitthvað skemmtilegt saman,” segir Ómar aðspurður um undirbúninginn fyrir stóra daginn. “Þeir skelltu sér saman á Þjóðhátíð fyrir stuttu til að undirbúa maraþonið og fengu sér nokkra hamborgara við það tækifæri. Þannig að strákarnir eru í fínu formi og hlakka til að takast á við hlaupið.”
Smart tvíeyki með fallegt hjartalag; Toggi og Dagur hlaupa 21 kílómeter fyrir Reykjadal
Sumarbúðirnar í Reykjadal spila heiðurssess í æskuminningum Dags
Reykjadalur, sem hýsir sumarbúðir fyrir fötluð og lömuð börn, spilar stóran sess í bernskuminningum Dags, sem er bundinn við hjólastól sjálfur og rekur hann fyrstu minningar sínar úr sumarbúðunum aftur til fimm ára aldurs. “Reykjadalur er fjölskyldunni mjög kær og því er það okkur mikils virði að mega safna fyrir sumarbúðirnar. Dagur hefur farið í Reykjadal frá fimm ára aldri og fer þangað á hverju sumri en ferðirnar í Reykjadal eru yfirleitt hápunktur sumarsins,” segir Ómar að endingu. “Þar fara börnin á hestbak og í bátsferðir, óteljandi skoðunarbrall og fjörið stendur yfir frá morgni til kvölds. Okkur fjölskyldunni er staðurinn afar kær og þykir mikilvægt að sumarbúðir barnanna fái að vaxa og dafna. Fjármögnun sumarbúðanna hefur gengið brösulega undanfarin ár og því er okkur heiður að fá að styrkja starfsemina, sem hefur veitt fjölskyldunni svo margar fallegar minningar, með þessu móti.”
Ritstjórn óskar þeim félögum góðs gengis í maraþoninu á laugardag, en tengil á áheitasíðu þeirra Dags og Togga má nálgast HÉR
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.