Krítartafla veggfóðruð á eldhúsvegg – Fyrir og eftir

Ég hef aldrei veggfóðrað áður en ég hafði fulla trú á að það væri nú ekki mikið mál að veggfóðra einn lítinn renning á eldhúsvegginn á hjá mér. Það hafði lengi verið hugmynd hjá mér að setja einhvers konar krítarvegg á þennan flöt en ég lét aldrei verða neitt úr því fyrr en ég rakst á þennan segul – og krítartöflu veggfóðursrenning.

Það sem þurfti samkvæmt leiðbeiningunum sem fylgdu renningnum var renningurinn sjálfur, lím, rúlla til að líma límið á og einhvers konar spaði til að taka loftbólur í burtu. Ég er ákaflega fær í flestan sjó þegar kemur að iðnaðarmanna verkum að mínu mati en til öryggis þá hóaði ég í vinkonu mína mér til halds og traust. Seinna kom í ljós að veggfóðrun er langt því frá minn tebolli og sá hún nánast um allt verkið á meðan ég var farin að gera eitthvað allt annað sem var mjög mikilvægt engu að síður.

Áður en við skelltum okkur út í djúpu laugina með þetta verkefni þá horfðum við á eitt Youtube myndband um það hvernig best væri að snúa sér í svona málum og þá kom í ljós að við vorum helst til illa vopnaðar verkfæralega séð. Við létum það að sjálfsögðu ekki stoppa okkur og hringdi ég í föður minn sem svo heppilega vill til rekur nánast byggingarvöruverslun í bílskúrnum hjá sér. Þriðja vinkona mína slóst svo í för með okkur og var hjálp hennar einnig ómissandi þar sem þörf varð á fleiri höndum.

Með leiðbeiningar, Youtube myndband og vinkonur mínar til halds og traust tókst okkur (aðallega vinkonu minni) ætlunarverkið og í lok kvöld gat ég dundað mér við að kríta á töfluna.

IMG_1614

IMG_1637

photo

SHARE