Mætti með heimilislausan mann á rauða dregilinn

Söngkonan Miley Cyrus kom flestum á óvart á dögunum þegar hún mætti á rauða dregilinn fyrir MTV VMA verðlaunaafhendinguna með drenginn Jesse Helt sem stefnumót sitt fyrir kvöldið.

Á sjálfri verðlaunaafhendingunni stóð Miley Cyrus uppi sem sigurvegari í flokknum tónlistarmyndband ársins en í stað þess að taka sjálf á móti þeim fór Jesse Helt upp á svið og hélt hjartnæma ræðu um hvernig það væri að vera heimilislaus í Hollywood en sjálfur er Jesse heimilislaus.

Jesse og Miley voru mynduð í bak og fyrir líkt og aðrir gestir kvöldsins en í kjölfar nýfundinnar frægðar Jesse kom í ljós að hann var eftirlýstur af lögreglunni. Jesse var á skilorði eftir að hann braust inn til manns sem hann hélt að væri að selja lélegt marijuana. Hann var dæmdur í 30 daga fangelsi vegna innbrotsins og settur á skilorð sem hann náði að brjóta. Í kjölfarið af því var gefin út handtökuskipun. Jesse hefur nú gefið sig fram til lögreglu.

Söngkonan Miley Cyrus er harðákveðin að hjálpa Jesse í gegnum þetta en upphaflega flutti Jesse til Hollywood til að gerast módel. Móðir Jesse hefur staðfest að Miley hafi boðist til að borga allan lögfræðikostnað fyrir Jesse.

SHARE